Mjög öruggur sigur Breiðabliks á KA
Breiðablik vann sannfærandi 4:1 sigur á KA á Kópavogsvelli í kvöld í Bestu deildinni í knattspyrnu, efstu deild Íslandsmótsins. KA er því enn með 17 stig en Breiðablik er langefst með 27 stig, sex á undan Stjörnunni og Víkingi.
Sigur Blika var afar sanngjarn þegar á heildina er litið. Ísak Snær Þorvaldsson kom heimamönnum í 1:0 eftir tæpar 25 mínútur og þannig var staðan í hálfleik. KA hefði þó sannarlega átt að geta verið búið að skora; Sveinn Margeirsson skaut rétt framhjá strax í byrjun leiks og aftur seint í hálfleiknum auk þess sem Ásgeir Sigurgeirsson fékk dauðafæri en Anton Ari markvörður Blika sá við honum
KA átti góða spretti í seinni hálfeik en Blikarnir voru mun hættulegri og komust í 4:0 áður en KA minnkaði muninn. Jakob Daði Svanþórsson skoraði í tvígang fyrir Breiðablik og Viktor Karl Einarsson gerði eitt mark. Það var svo á lokamínútunum sem Elfar Árni Aðalsteinsson gerði mark KA með föstu skoti vinstra megin úr teignum.
Smellið hér til að sjá leikskýrsluna
Smellið hér til að sjá stöðuna í deildinni