Fara í efni
Íþróttir

Mjög góð frammistaða og dýrmæt reynsla

Hallgrímur Jónasson á flugvellinum í Brussel í hádeginu; í símanum að ræða við Akureyri.net! Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA, til vinstri. KA-menn fljúga þaðan til Zurich í Sviss og þaðan heim til Akureyrar í kvöld. Ljósmynd: Ágúst Stefánsson

Hallgrímur Jónasson, þjálfari knattspyrnuliðs KA, var ánægður með margt í leik liðsins þrátt fyrir 5:1 tap gegn Brugge í Belgíu í gærkvöldi í þriðju umferð forkeppni Sambandsdeildar Evrópu. „Það var stuttur kafli í lok fyrri hálfleiks sem drap okkur,“ sagði hann í samtali við Akureyri.net í dag.

KA-menn biðu eftir flugi í Brussel þegar Akureyri.net ræddi við Hallgrím. Þeir fljúga til Zürich í Sviss og komast þaðan með beinu flugi heim til Akureyrar í kvöld. Eiga að lenda rétt fyrir miðnætti.

Stuttur kafli sem drap okkur

Það var vitað mál að Brugge er miklu sterkara lið en KA; án efa besti andstæðingur í alvöru leik í sögu félagsins. Hvernig meturðu frammistöðuna í gærkvöldi?

„Ég met frammistöðuna mjög góða. Ég var ótrúlega ánægður með að við þorðum að spila boltanum, við skorum mark og reyndar annað sem mér er sagt að hafi jafnvel ekki verið rangstaða – en tek fram að ég hef ekki séð upptöku af þessu. AGF frá Danmörku átti eitt skot á móti Brugge hér í Belgíu í síðustu umferð en við áttum fleiri,“ sagði Hallgrímur.

Harley Willard varð í gærkvöldi 10. KA-maðurinn til að skora í Evrópukeppni í knattspyrnu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

„Það var stuttur kafli í lok fyrri hálfleiks sem drap okkur. Ég hefði viljað sjá okkur betri þar; að menn hefðu þolað það betur að fá á sig annað markið á 40. mínútu. Einhver hefði þurft að sýna leiðtogahæfileika eftir það, segja mönnum að setja kassann út, halda haus og fara inn í hálfleikinn með stöðuna 2:0.“

Brugge gerði þriðja markið aðeins einni mínútu eftir að staðan varð 2:0 og það fjórða úr víti á lokamínútu hálfleiksins.

Hallgrímur segir að líklega megi kenna þreytu og reynsluleysi á svo stóru sviði um það sem gerðist á lokamínútum fyrri hálfleiksins. „Það hefði auðvitað verið allt annað að fara inni í hálfleikinn með 2:0,“ segir hann og bendir á að seinni hálfleikurinn fór 1:1.

Mikilvægt að þora

„Club Brugge komst í 16 liða úrslit Meistaradeildarinnar í fyrravetur, og það er auðvitað eðlilegt að leikur gegn svona liði á útivelli sé erfiður.  Mér er sagt að félagið hafi úr 70 sinnum meira fjármagni að spila en við, sem segir ýmislegt! En ég var ánægðari með margt í gær en í leiknum gegn Dundalk á Írlandi um daginn. Þar hefðum við átt að þora að gera meira. Reynsla strákanna eykst með hverjum leik í Evrópukeppninni en fjögurra marka tap er auðvitað mjög erfitt fyrir seinni leikinn.“

Það var einmitt áberandi strax frá byrjun að þið þorðuð; spiluðuð boltanum út úr vörninni og reynduð að halda honum. Kom aldrei annað til greina?

„Nei, ég sagði við strákana að við mættum alls ekki verða hræddir og negla boltanum alltaf fram. Við yrðum að spila eins og við erum vanir – annars yrði þetta mjög erfitt.“

Hallgrímur Jónasson í símanum fyrr í dag á flugvellinum í Brussel, í viðtali við Akureyri.net. Aðrir á myndinni eru, frá vinstri, Steingrímur Örn Eiðsson aðstoðarþjálfari, Gunnlaugur Eiðsson, stjórnarmaður, og Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA. Ljósmynd: Ágúst Stefánsson.

Ég skrifaði  á Akureyri.net í gærkvöldi að þið gætuð, þrátt fyrir allt, gengið býsna stoltir frá borði og væruð sannarlega reynslunni ríkari. Ertu sammála því?

„Já, ég er alveg sammála því. Þjálfarateymi Brugge kom til okkar eftir leikinn og hrósaði okkur fyrir leikskipulagið. Þeir höfðu reyndar orð á því að fyrra bragði hve álagið væri mikið á okkur – spurðu hvað væri eiginlega í gangi heima á Íslandi! Þeir hafa auðvitað fylgst vel með okkur undanfarið og sögðu leikjaálagið á okkur ótrúlegt.“

Rosalegt álag

„Eins og fólk veit erum við undir rosalegu álagi. Það væri gaman að sjá hvernig við værum með fulla orku á móti svona liði; það vorum við ekki í gær, það er leikið þétt og við höfum mikið verið að ferðast; íslensku liðin sem taka þátt í Evrópukeppni eru sett í ótrúlega stöðu. Leikmenn ná ekki almennilegri endurheimt á milli leikja,“ segir Hallgrímur og á þar við að mönnum gefist ekki tækifæri til að hvílast nægilega vel og safna kröftum á nýjan leik. „Við erum búnir að spila fimm Evrópuleiki, erum komnir í úrslit í bikarkeppninni, komum heim á föstudagskvöldi eftir tvö flug og eigum svo leik í deildinni á sunnudaginn. Þetta er galið.“

Er þetta óhjákvæmilegt? Enginn möguleiki á að liðka til?

„Þetta hefur verið rætt á hverju einasta ári. FH átti einn leikmann í U19 landsliðinu [sem lék í lokakeppni Evrópumótsins í síðasta mánuði] og það var hægt að fresta leik þeirra við okkur í deildinni en bæði við og Breiðablik fengum þau skilaboð að ekki væri hægt að breyta neinu vegna Evrópuleikjanna.“

Hallgrímur nefnir að KA hafa spilað í Bestu deildinni á milli leikjanna við Dundalk í síðustu umferð Sambandsdeildarinnar en írska liðið ekki spilað á milli leikjanna við KA. Einnig að síðasti leikur Brugge fyrir gærkvöldið var á sunnudaginn en KA mætti Val í Reykjavík á mánudaginn og ferðaðist svo til Belgíu á þriðjudag.

Hallgrímur Jónasson kallar til sinna manna í fyrri leiknum gegn Dundalk í síðustu umferð. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

„Það hefur sem sagt hist þannig á að andstæðingar okkar hafa fengið lengra frí á milli leikja þannig að þau lið hafa verið miklu ferskari en við. Ég ætla ekki að hljóma neikvæður en vil bara koma þessu á framfæri svo fólk skilji stöðuna. Við eigum meiri möguleika gegn svona sterku liði ef menn eru með fulla orku. En að því sögðu er ég að sjálfsögðu ánægður og stoltur yfir því að komast í þriðju umferð Evrópukeppni, það var svakaleg upplifun fyrir strákana að leika fyrir framan 25.000 áhorfendur á fullkomnum grasvelli í gær og ég var mjög ánægður með framlag minna manna.“

Breiðablik fékk slæman skell í Bosníu í gærkvöldi og ferðast líka heima í dag. Þið mætið þeim svo á heimavelli í deildinni á sunnudaginn; tvö þreytt lið að mætast. Það gæti orðið sérstakur leikur.

„Ég er sammála. Það gæti orðið furðulegur leikur; það er erfitt að sjá fyrir sér hvernig hann verður en spilgæðin verða líklega minni en oft þegar þessi tvö lið mætast.“

Mikil reynsla – afar lærdómsríkt

Fæstir leikmenn KA hafa upplifað að leika við aðstæður eins og í gærkvöldi og tækifærið líklega einstakt á ferli margra þeirra, segir þjálfarinn. „Þetta er rosalega lærdómsríkt fyrir KA sem heild, við erum að læra sem félag hvernig er að halda Evrópuleiki, að fara út og spila, ég veit að þetta er rosaleg vinna fyrir stjórnarmenn og aðra sem eru í kringum liðið í sjálfboðavinnu. Það er líka mikil reynsla fyrir þjálfarateymið, að eiga við andstæðinga sem við þekkjum ekki neitt fyrirfram. Ég er á fyrsta ári mínu sem þjálfari og er búinn að fá vera í alvöru skóla! Við erum komnir í þriðju umferð í Evrópukeppni og í úrslit í bikarkeppninni.“

Ívar Örn Árnason var ekki leikfær í gær  en gæti orðið til í slaginn gegn Breiðabliki á sunnudaginn eða í seinni leiknum gegn Club Brugge á fimmtudag í næstu viku. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Ótrúlega þakklátur

„Ég er ótrúlega þakklátur fyrir svo margt; sumarið hefur verið frábært hingað til – við erum að berjast á þrennum vígstöðum og allir eru að læra. Strákarnir hafa þurft að fórna rosalega miklu varðandi vinnu og fleira til að sinna fótboltanum. Það er í raun enginn tími til að vera í vinnunni þessa dagana og menn verða að hugsa mjög vel um sig á milli leikja. En þegar strákarnir spila við betri lið verða þeir betri sjálfir og fá meira sjálfstraust. Vonandi gefur þetta ungu strákunum blóð á tennurnar og verður til þess að þeir komist hærra en að leika á Íslandi. Ég tel alla hafa lært mikið á þessu, þar á meðal mig, og ég vona að KA muni halda vel á spöðunum til að geta haldið svona áfram, og félagið taki reglulega þátt í Evrópukeppni. Það er rosalega gaman,“ sagði Hallgrímur.

Ívar og Bjarni meiddir

Ívar Örn Árnason og Bjarni Aðalsteinson hafa verið meiddir og léku ekki í gær. Hvernig er staðan á þeim?

„Ívar meiddist á öxl um daginn og verður klár einhvern tíma á næstu dögum. Við tökum stöðuna á honum á hverjum einasta degi. Það eru bólgur í öxlinni og smellur í liðbandi sem er erfitt fyrir haffsent sem er stöðugt í skallaeinvígjum og návígi. Ívar langaði rosalega að ná leiknum í gær en það var ekki hægt. Bjarni tognaði á ökkla á móti HK um daginn, í annað sinn í sumar í sömu liðböndunum og var ekki tilbúinn í gær. Ég reikna ekki með að hann getið verið með í 90 mínútur á sunnudaginn en hann gæti tekið einhvern þátt í leiknum.“