Mjög erfitt en hef tröllatrú á liðinu
Gamla landsliðskempan Arnór Atlason, aðstoðarþjálfari stórliðs Álaborgar í Danmörku, skaust yfir til Gautaborgar í morgun til þess að sjá Strákana okkar í handboltalandsliðinu etja kappi við Svía á HM í kvöld. Hann segir Svíana vissulega með gríðarlega sterkt lið en kveðst, í samtali við Akureyri.net, hafa tröllatrú á íslenska liðinu.
Arnór – einn silfurdrengjanna frá Ólympíuleikunum í Kína árið 2008 – er nú aðstoðarþjálfari hjá stórliði Álaborgar sem fyrr segir en tekur við sem aðalþjálfari TTH Holstebro í sumar. Mörgum fyrstu pörunum af handboltaskóm eyddi hann vitaskuld hjá KA á sínum tíma eins og margir muna.
Planið var augljóst
Mikið hefur verið rætt og ritað um tapleikinn gegn Ungverjum í riðlakeppninni, þegar leikur Íslendinga hrundi í seinni hálfleik og þeir töpuðu eftir að hafa haft leikinn í hendi sér. „Það var augljóst hvert planið var; að vinna tvo fyrstu leikina með okkar sterkasta liði því vitað mál var að ef það tækist væri Ísland nánast öruggt með sæti í átta liða úrslitunum. Við þyrftum auðvitað að vinna bæði Grænhöfðaeyjar og Brasilíu í milliriðlinum en það eru skyldusigrar,“ sagði Arnór við Akureyri.net í Gautaborg í dag.
„Planið gekk næstum því upp! Vegna þess að við töpuðum leiknum spyrja menn sig hvort leikmenn hafi koðnað niður af því þeir voru búnir að spila tvo heila leiki á þremur dögum. Ef við hefðum ekki tapað hefði enginn talað um það.“
Hvað segir reynslan þér, eru menn þreyttir eftir svona törn?
„Tja, af hverju klúðraði Bjarki Már svona mikið í lokin? Af hverju tók Ómar ekki þau færu sem gáfust undir lokin? Ég veit það ekki, en ég veit alveg að menn eiga að geta spilað tvo heila leiki á þremur dögum. Það er bara þannig.“
Getum unnið öll lið í heiminum
„Ég vil meina að tapið á móti Ungverjum hafi bara verið slys. Mér fannst Ungverjarnir ekki góðir, við klúðruðum þessi bara sjálfir. Íslenska liðið hefur hins vegar sýnt að það getur spilað ótrúlega vel og ég vil meina að við getum unnið öll lið í heiminum, við höfum leikmenn, liðsheild og þjálfarateymi til þess. Þess vegna er ég bjartsýnn; íslenska landsliðið er það lið sem ég held mest með í heiminum og ég hef óbilandi trú á strákunum! Auðvitað er ég smeykur að spila á móti Svíum á heimavelli, þeir hafa mörg vopn en ég hef samt 100% trú á íslenska liðinu. En vörnin þarf að vera þrusugóð í kvöld og við þurfum líka að fá toppklassa markvörslu.“
Arnór bendir á að breiddin sé svo mikil hjá Svíum að burðarásar liðsins hafi spilað 15 mínútur í hvorum hálfleik. „Gera þeir það í kvöld? Ég veit það ekki en fróðlegt verður að sjá það. Þeir hafa ekki lent í neinu veseni í mótinu hingað til. Danirnir fengu í fyrsta skipti alvöru mótspyrnu í gær þegar þeir spiluðu við Króata – í besta leik mótsins – og það fór ekki vel í þá. Ísland er langsterkasta liðið sem Svíar mæta hingað til og spennandi að sjá hvernig þeir bregðast við ef þeir lenda í vandræðum; hvort pressan á þeim verður of mikil hér á heimavelli.“
Hann bætir svo við: „Kannski er ég bara að vonast eftir þessu! Leikurinn verður auðvitað mjög erfiður, mér finnst Svíarnir spila mjög góða vörn og eiga örugglega eftir að spila tiltölulega aftarlega á móti okkur til að verjast gegnumbrotum Gísla og Ómars. Við verðum því að reyna að opna fyrir langskot.“
Íslensku skytturnar hafa ekki gert mikið af því að skjóta utan af velli í mótinu.
„Nei, það er rétt, ekki nógu mikið. Ég sé fyrir mér að eftir þessar árásir þeirra verði meira um klippingar til að búa til skotfæri; það er nauðsynlegt til þess að Svíarnir geti ekki bara spilað aftarlega í vörninni. Ég hugsa sérstaklega til Arons Pálmarssonar í þessu sambandi. Ég veit alveg hvernig honum líður því það eru svona leikir sem skipta hann öllu máli. Hann lifir fyrir svona leiki, hann veit það sjálfur að hann er alltaf bestur í svona leikjum og ég er því rosalega spenntur að sjá hann á eftir.“
UPPFÆRT KL 18.30 - Aron Pálmarsson er meiddur á kálfa og verður ekki með gegn Svíum í kvöld! Áfall fyrir íslenska liðið.