Fara í efni
Íþróttir

Missir af þremur fyrstu leikjum í deildinni

Örnu Sif fagnað eftir að hún skoraði gegn Celtic um fyrri helgi.

Arna Sif Ásgrímsdóttir, fyrirliði Þórs/KA í knattspyrnu, missir af þremur fyrstu leikjum liðsins á Íslandsmótinu – gegn ÍBV í Eyjum 4. maí, Selfossi á heimavelli 11. maí og gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks í Kópavogi 15. maí.

Arna Sif var lánuð til Glasgow City í Skotlandi og kemur heim 10. maí. Síðasti leikur hennar verður gegn Rangers daginn áður, og sker nær örugglega úr um hvort liðið verður Skotlandsmeistari. Þá verða reyndar sjö umferðir eftir af deildinni en liðin tvö hafa mikla yfirburði og eru jöfn í efsta sætinu.

Þegar heim kemur fer Arna í nokkurra daga sóttkví og nær því ekki Breiðabliksleiknum, ef reglur um sóttkví verða þær sömu og í dag. „Mótinu hér átti að ljúka 2. maí og þá hefði allt gengið upp. En Covid þurfti auðvitað að skemma það!“ sagði Arna Sif við Akureyri.net. Lánssamningurinn var samt gerður til 10. maí og gert ráð fyrir að hún hefði félagaskipti í Þór/KA á ný strax eftir það til að ná leiknum í Vestmannaeyjum.