Fara í efni
Íþróttir

Minningarbekkur um Magnús og Bangsa

Myndir af vef Heilsuverndar - hjúkrunarheimila

Hjúkrunarheimilinu Hlíð var á dögunum færður að gjöf bekkur til minningar um þá félaga, Magnús Ágústsson og Bangsa, köttinn hans, fyrrum íbúa á heimilinu.

Greint er frá þessu á vef Heilsuverndar - hjúkrunarheimila.

Þar segir: „Magnús Ágústsson var fæddur árið 1928 á Ólafsfirði. Hann lærði húsasmíði hjá föður sínum og byggingarverkfræði í Noregi. Magnús starfaði í mörg ár hjá Akureyrarbæ. Magnús var bæði notandi í dagþjálfun og síðar íbúi á Hlíð. Hann og kisinn hans Bangsi voru duglegir að fara út að ganga saman og könnuðust margir í hverfinu við þá félaga. Það voru dætur hans þrjár sem færðu heimilinu þessa fallegu gjöf fyrir hönd systkinanna fimm. Bekkurinn er staðsettur á göngustígnum við Aspar- og Beykihlíð þar sem þeir félagar áttu heima. Hjúkrunarheimilið þakkar kærlega fyrir þessa góðu gjöf og vonast til þess að sem flestir sem eiga leið hjá nýti sér þennan fallega bekk.“

Magnús Ágústsson var bæði notandi í dagþjálfun og síðar íbúi á Hlíð.

 Bangsi, köttur Magnúsar.