Íþróttir
Mikið í húfi þegar norðanmenn mætast
17.08.2021 kl. 14:31
Margrét Árnadóttir og Karen María Sigurgeisdóttir (6) fagna marki þeirrar fyrrnefndu í leik Þórs/KA og Tindastóls í Lengjubikarkeppninni snemma árs. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Sannkallaður Norðurlandsslagur verður á Þórsvellinum (Salt Pay vellinum) í dag, þegar Þór/KA og Tindastóll mætast í efstu deild Íslandsmóts kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max deildinni.
Stelpurnar okkar í Þór/KA eru í sjöunda sæti deildarinnar með 15 stig eftir 14 leiki en Tindastóll í níunda og næst neðsta sæti með 11 stig að loknum 13 leikjum.
Bæði lið þurfa því verulega á öllum stigunum þremur að halda í botnbaráttunni. Ástæða er til þess að hvetja fólk til að mæta á völlinn og styðja við bakið á stelpunum.
Liðin hafa mæst þrisvar á þessu ári:
- Þór/KA sigraði í viðureign liðanna í Lengjubikarkeppninni, 5:2, í Boganum í febrúar.
- Tindastóll hafði betur, 1:0, í Kjarnafæðismótinu á Sauðárkróksvelli í lok apríl.
- Þór/KA vann fyrri leik liðanna á Íslandsmótinu á Sauðárkróksvelli 27. maí, 2:1. Þá gerði Sandra Nabweteme bæði mörkin, það síðara á lokasekúndum uppbótartímans. Hún er nú í láni hjá FH, sem leikur í næst efstu deild.
Tindastóll er nýliði í efstu deild Íslandsmótsins. Leikur kvöldsins er því fyrsta rimma Akureyringa og Sauðkrækinga á þeim vettvangi í höfuðstað Norðurlands. Flautað verður til leiks klukkan 18.00.