Miðasala á stórleikinn við Fram klúðraðist
Stuðningsmenn KA/Þórs sem keypt höfðu miða á stórleik laugardagsins í handbolta við Fram í Reykjavík í gegnum miðasöluappið Stubb fengu í dag skilaboð um að miðarnir hafi farið í sölu vegna mistaka og yrðu endurgreiddir.
Liðin eru efst og jöfn í Olís deild kvenna, þetta er lokaleikur deildarinnar og sker því úr um hvort liðið verður deildarmeistari. Stuðningsmennirnir sem um ræðir eru að vonum afar óhressir og Akureyri.net hefur m.a. fengið upplýsingar um að tvenn hjón, sem höfðu keypt sér flug til Reykjavíkur vegna leiksins, og pantað sér gistingu, væru á meðal þeirra sem fengu umrædd skilaboð í dag.
Á Facebook síðu Fram segir að í gær hafi orðið ljóst að uppselt yrði á leikinn þar sem eigendur árskorta og leikmenn Fram hafi ákveðið að nýta sér alla þá 90 miða sem eru í boði. Fleiri miðar hafi engu að síður verið settir í sölu. „Fram harmar þessi mistök og hafa í samvinnu við Stubb tekið alla miða úr sölu, ásamt því að hafa endurgreitt og sent sms skilaboð á alla miðakaupendur. Því miður getum við ekki tvíselt miðana en eins og fyrr hefur komið fram ganga árskorthafar og iðkendur Fram fyrir.“
Framarar höfðu gefið forráðamönnum KA/Þórs vilyrði fyrir því að stuðningsmenn Akureyrarliðsins fengju 10 miða á leikinn og við það verður staðið eftir því sem næst verður komist.
Leikurinn á laugardaginn verður sýndur á Stöð 2 Sport og hefst klukkan 13.30.