Meistararnir komnir á flug á nýjan leik
Íslands- og bikarmeistarar KA/Þórs í handbolta unnu mjög sannfærandi sigur, 28:23, á Val í KA-heimilinu í dag, á Íslandsmótinu. Stelpurnar okkar komust mest níu mörkum yfir í seinni hálfleik, Andri Snær Stefánsson þjálfari, gaf þá nokkrum ungum leikmönnum tækifæri og þeir sigldu sigurskútunni örugglega í höfn.
Fram, sem er í efsta sæti, tapaði í dag á heimavelli fyrir ÍBV. Fram er nú með 21 stig eftir 13 leiki, Valur með 16 stig eftir 12 leiki og KA/Þór með 15 stig, einnig eftir 12 leiki. Næsti leikur KA/Þórs verður á miðvikudaginn gegn HK í Kópavogi - frestaður leikur frá því fyrir skömmu - og næsta laugardag kemur ÍBV í heimsókn. Eyjastelpurnar, sem töpuðu í undanúrslitum Íslandsmótsins í fyrra fyrir KA/Þór, hafa nú unnið fjóra leiki í röð og eru með 14 stig að loknum 12 leikjum.
Ferskar allan tímann í sókninni
„Við sýndum virkilega góða frammistöðu. Stelpurnar voru virkilega ferskar allan leikinn sóknarlega, það tók nokkrar mínútur að ná almennilegum tökum á vörninni en þegar hún fór í gang þá fór Matea að verja og það skilaði sér í hraðaupphlaupum,“ sagði Andri Snær við Akureyri.net.
„Við fengum sjálfstraust sem skilaði sér í sókninni, við sýndum aga og fengum fullt af góðum færum. Það var gott að fá mörk utan af velli og við fengum framlag frá mörgum leikmönnum. Liðsheildin var góð og sigurinn mikilvægur.“
Andri Snær segir að nú haldi hópurinn áfram að vinna í sínum málum eins og alltaf. „Við getum gert enn betur og það er leikur við HK á miðvikudaginn. Við ætlum okkur að mæta klár í þann slag.“
Rut Jónsdóttir 10 (2 víti), Aldís Ásta Heimisdóttir 5, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 4, Unnur Ómarsdóttir 2, Rakel Svara Elvarsdóttir 2, Ásdís Guðmundsdóttir 2, Martha Hermannsdóttir 1 (víti), Hildur Lilja Jónsdóttir 1, Anna Þyrí Halldórsdóttir 1.
Matea Lonac varði 14 skot og Sunna Guðrún Pétursdóttir 2, annað var vítakast.
Smellið hér til að sjá alla tölfræði úr leiknum