Meistarar KA/Þórs töpuðu fyrir ÍBV í Eyjum
Íslandsmeistarar KA/Þórs töpuðu með tveggja marka mun, 26:24, fyrir ÍBV í Eyjum í kvöld í Olís deild Íslandsmótsins í handbolta. Staðan í hálfleik var 14:14.
Leikurinn var spennandi en nokkuð sveiflukenndur. Stelpurnar okkar voru í kjörstöðu þegar nokkrar mínútur voru eftir, tveimur mörkum yfir, en heimaliðið gerði fjögur síðustu mörk leiksins.
Fram er í efsta sæti deildarinnar með 23 stig úr 15 leikjum, Valur er með 22 stig að 16 leikjum loknum og KA/Þór er í þriðja sæti með 19 stig eftir 15 leiki.
„Þetta fer bara á lokakaflanum, okkur vantaði að komast yfir frostkafla í sókn. Við skutum í stöng og náðum því miður ekki að skora í ágætis færum. ÍBV gerði það hins vegar og í svona leikjum þá þarf að skora á stóru augnablikunum, ÍBV gerði það en ekki við,“ sagði Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs, við mbl.is eftir leikinn.
Umdeilt atvik átti sér stað undir lokin þegar Unnur Ómarsdóttir gat jafnað, 25:25; hún fór inn úr horninu en skaut framhjá. Svo virtist sem brotið væri á Unni en ekkert dæmt. „Fyrir mér var þetta augljóst vítakast, ég er gamall hornamaður og veit að þetta er alltaf víti og meira að segja tvær mínútur, mér fannst það að dæma ekki neitt, vera mjög súrt. Það er búið og áfram gakk,“ sagði Andri við mbl.is.
KA/Þór er í þriðja sæti sem fyrr segir. Efstu tvö liðin fara beint í undanúrslit en liðin í 3. og 4. sæti eiga heimaleikjarétt í úrslitakeppni liðanna í 3.-6. sæti um tvö sæti í undanúrslitum.
Smellið hér til að sjá alla tölfræðina úr leiknum.
Smellið hér til að lesa viðtalið við Andra Snæ þjálfara á mbl.is.