Fara í efni
Íþróttir

Markaregn á Þórsvelli í gær – MYNDIR

Hulda Ósk Jónsdóttir, til vinstri, lék frábærlega í seinni hálfleik í gærkvöldi, gerði tvö mörk og átti stóran þátt í tveimur öðrum. Hér fagnar Hulda ásamt Emelíu Ósk Krüger eftir að hún gerði stórglæsilegt mark og breytti stöðunni í 4:0. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA vann 5:0 sigur á nágrönnum sínum í Tindastól í gærkvöldi, í 9. umferð Bestu deildar kvenna, efstu deildar Íslandsmótsins, eins og Akureyri.net fjallaði um hér

Staðan var markalaus í leikhléi en fimm mörk frá Þór/KA í þeim seinni sáu til þess að liðið vann annan leik sinn í röð. Liðið var þó fyrir áfalli í lok fyrri hálfleiks þegar Sandra María Jessen fór meidd af velli.

Þór/KA liðið lék vel og var spilamennskan sérstaklega góð í seinni hálfleik þar sem liðið nýtti færin sín, sem ekki  tókst í þeim fyrri. Eftir leikinn er liðið í fjórða sæti deildarinnar með 15 stig, fimm stigum frá toppliði Vals. Næsti leikur liðsins er á sunnudaginn þegar Stjörnukonur koma í heimsókn á Þórsvöll.

Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna úr leiknum

_ _ _

ÞÓR/KA BYRJAR AF KRAFTI
Heimakonur voru öflugri aðilinn í fyrri hálfleik og fengu fjölmörg tækifæri til þess að skora. Karen María Sigurgeirsdóttir átti hörku skot á 11. mínútu leiksins sem small í slánni. Stuttu síðar fékk Þór/KA liðið aukaspyrnu alveg við vítateigs línuna en Jakobína Hjörvarsdóttir skaut boltanum rétt yfir markið.

_ _ _

SANDRA MARÍA MEIÐIST ILLA
Sandra María Jessen og Þórs/KA liðið varð fyrir áfalli undir lok fyrri hálfleiks þegar hún meiddist. Boltinn skaust þá til baka í hendina á Söndru eftir að varnarmaður komst fyrir skot hennar. Við það brotnaði bein í handlegg hennar og Sandra fór sárþjáð af velli. 

Smellið hér til að sjá myndasyrpu af atvikinu.

_ _ _

GESTIRNIR KOMA BOLTANUM Í NETIÐ EN MARKIÐ DÆMT AF
Eftir að hafa átt afar fá færi í fyrri hálfleik byrjaði Tindastólsliðið seinni hálfleikinn af krafti. Á 48. mínútu kom gestaliðið boltanum í netið þegar Melissa Garcia skoraði með skalla. Sveinn Arnarson, dómari leiksins, dæmdi þá sóknarbrot á Melissu þegar hún stökk upp í skallabolta gegn nöfnu sinni í marki Þórs/KA. Ekki er annað að sjá, á efri myndinni, en sóknarmaðurinn brjóti á markverðinum; hanskaklædd hönd hennar heldur vinstri hönd markmannsins niðri áður en hún skallar boltann.

_ _ _

1:0 – DOMINIQUE RANDLE BRÝTUR ÍSINN
Á 62. mínútu leiksins leit fyrsta mark leiksins dagsins ljós. Heimakonur fengu þá hornspyrnu sem Jakobína tók. Varnarmaður Tindastóls náði ekki að skalla boltann langt frá og barst hann út í teiginn. Þar var Dominque Randle mætt og skoraði með góðu vinstrifótar skoti. Eftir markið gekk Þórs/KA liðið á lagið og mörkin komu á færibandi eftir þetta.

_ _ _

2:0 – KAREN MARÍA TVÖFALDAR FORYSTUNA
Aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Karen María Sigurgeirsdóttir annað mark leiksins. Eftir skyndisókn heimakvenna fékk Karen sendingu utarlega í vítateiginn frá Huldu Ósk. Karen María átti skot sem var ekki fast en það var í vinstra hornið og Monica réði ekki við skotið.

_ _ _

3:0 – UNA MÓEIÐUR SKORAR Í ÖÐRUM LEIKNUM Í RÖÐ
Á 68. mínútu skoraði Una Móeiður Hlynsdóttir þriðja mark Þórs/KA og gerði um leið út um leikinn. Hulda Ósk, sem var allt í öllu í sóknarleik Þórs/KA í seinni hálfleik, átti þá sendingu fram völlinn. Þar náði Una Móeiður með harðfylgi að komast framhjá varnarmanni; stangaði boltann sekúndurbroti áður en María Dögg Jóhannesdóttir náði að spyrna frá, komst inn í teig og renndi boltanum fram hjá Monicu í marki Tindastóls. Annað markið frá Unu í tveimur byrjunarliðsleikjum fyrir Þór/KA sem verður að teljast ansi vel gert.

_ _ _

4:0 – HULDA ÓSK SKORAR MEÐ FRÁBÆRU SKOTI
Eftir að hafa lagt upp tvö síðustu mörk Þór/KA var komið að Huldu Ósk Jónsdóttur að skora. Á 79. mínútu leiksins. Löng sending fram völlinn og Hulda komst þá á ferðina ein gegn varnarmanni Tindastóls. Hulda keyrði inn völlinn, tók skæri og kom sér inn í teig. Þar átti hún frábært skot og náði að snúa boltann út fyrir Monicu í marki gestanna sem kom engum vörnum við. Virkilega gott mark frá Huldu sem var frábær í seinni hálfleik og steig virkilega upp eftir að Sandra fór meidd af velli.

_ _ _

5:0 – HULDA ÓSK SKORAR ÚR VÍTI
Hulda Ósk kórónaði svo góðan leik seinn með marki úr víti á 92. mínútu. Sveinn Arnarson dómari leiksins hafði þá réttilega dæmt vítaspyrnu þegar Hannah Jane Cade handlék knöttin afar klaufalega innan teigs. Hulda Ósk tók vítið og skoraði, Monica var í boltanum en skotið var nógu fast til þess að enda í netinu