Margrét skoraði úr víti og Þór/KA fékk stig
Þór/KA gerði 1:1 jafntefli við Val í Reykjavík í kvöld, í Pepsi Max deildinni í knattspyrnu, efstu deild Íslandsmótsins. Margrét Árnadóttir gerði mark Akureyrarliðsins úr vítaspyrnu í upphafi síðari hálfleiks en Elín Metta Jensen hafði skorað fyrir Val í fyrri hálfleik. Þór/KA er komið með sjö stig eftir sjö leiki.
Elín Metta skoraði á 19. mínútu, eftir slæm mistök í liði gestanna. Hún komst inn í lélega sendingu og átti auðvelt með að skora. Strax á annarri mínútu seinni hálfleiks átti María Catharina Ólafsdóttir Gros skot að marki Vals, boltinn fór í hönd varnarmanns og víti var dæmt. Margrét skoraði af miklu öryggi og þar við sat.
„Ef einhvern tímann var tækifæri til að koma á Hlíðarenda og taka þrjú stig, þá var það í kvöld, en auðvitað virðum við stigið á móti góðu Valsliði,“ hefur mbl.is eftir Örnu Sif Ásgrímsdóttur, fyrirliða Þórs/KA, í kvöld. Blaðamaður mbl.is segir að gestirnir hafi verið síst lakari í leiknum.
„Við vorum þéttar til baka og gáfum fá færi á okkur. Ég hefði þó viljað sjá aðeins meira hugrekki þegar við fengum boltann, það voru tækifæri til þess. Valur er öflugt lið sem pressar vel og stundum bjuggumst við ekki við því að hafa tíma á boltanum. Það vantaði smá hugrekki,“ segir Arna Sif.
Þór/KA var búið að tapa fjórum af síðustu fimm leikjum sínum og situr liðið rétt fyrir ofan fallsæti. „Við þurftum á þessu stigi að halda og það vonandi gefur okkur smá sjálfstraust fyrir næstu leiki,“ sagði Arna Sif í samtali við mbl.is.
Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna.
Stórleikur kvöldsins var viðureign Selfoss og Breiðabliks. Fyrir kvöldið var lið Selfoss efst með 13 stig en Íslandsmeistarar Breiðabliks unnu stórsigur á útivelli, 4:0. Smelltu hér til að sjá stöðuna í deildinni eftir leiki kvöldsins.