Magnaður sigur á Val og KA aftur í bikarúrslit
KA leikur til úrslita í bikarkeppninni í knattspyrnu annað árið í röð! KA-strákarnir unnu Valsmenn 3:2 í hörkuleik í undanúrslitunum á Greifavelli sínum í kvöld.
Eins og sagði í upphitun fyrir leikinn hér á Akureyri.net fyrr í dag er eins og liðin megi ekki mætast í bikarkeppninni án þess að úr verði einhvers konar ævintýri! Þetta var í fimmta sinn sem þau mætast í bikarleik og boðið var upp á miklu spennu. Dugnaður og samheldni KA-manna var aðdáundarverð, þeir börðust eins og ljón, gáfu aldrei þumlung eftir og uppskáru eftir því.
Hallgrímur Mar Steingrímsson tók forystu fyrir KA með marki eftir aðeins fimm mínútur, Patrick Pedersen jafnaði fyrir Val seint í fyrri hálfleik og Jakob Snær Árnason kom KA yfir á ný áður en hálfleiknum lauk.
Daníel Hafsteinsson gerði þriðja mark KA á 62. mín. við mikinn fögnuð en ekki voru liðnar nema þrjár mínútur þar til Birkir Már Sævarsson hafði minnkað muninn fyrir gestina. Staðan þá 3:2 og þann rúma hálftíma sem liðin héldu áfram leik var spennan mikil. Valsmenn voru mun meira með boltann en KA-liðið varðist mjög vel og átti stórhættulegar sóknir. Hefði sannarlega getað skorað meira.
Úrslitaleikurinn fer fram á Laugardalsvelli föstudagskvöldið 23. ágúst. KA mætir annað hvort Víkingi eða Stjörnunni í úrslitaleiknum. Þau leika í undanúrslitum á morgun.
Meira seinna