Magnaður sigur á meisturunum
Þór/KA vann ótrúlegan sigur, 2:1, á Íslandsmeisturum Vals í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, í Boganum í kvöld. Sandra María Jessen skoraði snemma leiks, landsliðsframherjinn Elín Metta Jensen jafnaði jafnaði í seinni hálfleik og Valsmenn sóttu ákaft en Margrét Árnadóttir gerði sigurmarkið eftir skyndisókn.
Frábær sigur og dýrmætur fyrir Stelpurnar okkar eftir slæmt tap fyrir Breiðabliki á útivelli í fyrstu umferðinni. Þór/KA er því með þrjú stig að loknum tveimur leikjum og öruggt mál að allir hefðu þegið þá stöðu fyrirfram, vitandi að í tveimur fyrstu umferðunum myndi liðið mæta tveimur langbestu liðum landsins undanfarin ár.
- 1:0 Sandra María Jessen (6. mín.) eftir sendingu Tiffany Janea McCarty
- 1:1 Elín Metta Jensen (64.)
- 2:1 Margrét Árnadóttir (75.) eftir sendingu Tiffany Janea McCarty
Besta stutta lýsingin á leiknum er svona: Íslandsmeistarar Vals sóttu og leikmenn Þórs/KA vörðust. Það sýndi sig hins vegar í kvöld að ekki er nóg að sækja og skjóta oft á markið. Valsmenn fengu ljómandi góð tækifæri til að skora en annað hvort hittu þeir ekki markið eða Harpa Jóhannsdóttir, markvörður Þórs/KA, sá við þeim. Hún var stórkostleg – þetta var örugglega besti leikur hennar á ævinni!
Liðsheildin var flott í kvöld, stelpurnar börðust af miklum krafti allan tímann og misstu ekki móðinn þótt meistararnir næðu að jafna þegar tæpur hálftími var eftir. Það er erfitt að þurfa að verjast af jafn miklum móð og Þór/KA gerði í kvöld en einmitt þess vegna aðdáunarvert að liðið hélt einbeitingu.
Smellið hér til að sjá leikskýrsluna