Fara í efni
Íþróttir

Maddie Sutton áfram með Þór

Madison Anne Sutton í leik með Þórsliðinu. Mynd: Sara Skaptadóttir.

Körfuknattleiksdeild Þórs hefur samað nýju við bandaríska miðherjann Madison Anne Sutton, en hún var lykilleikmaður með liðinu á nýliðnu tímabili þegar Þórsstelpurnar tryggðu sér sæti í efstu deild í fyrsta skipti í 45 ár. Þetta kemur fram á heimasíðu félagsins í dag.

Madison Anne Sutton, eins og hún heitir fullu nafni, var með fremstu leikmönnum í flestum eða öllum tölfræðiþáttum leiksins í 1. deildinni í vetur, hvort sem litið er á stigaskor, fráköst, stoðsendingar, framlagspunkta eða annað. Óhætt er að segja að Maddie hafi verið mikill fengur fyrir Þórsliðið, en hún samdi við liðið eftir árs dvöl á Sauðárkróki þar sem hún lék með liði Tindastóls. 

Áður hafði félagið tilkynnt komu Huldu Óskar Bergsteinsdóttur frá KR, auk þess sem lykilleikmenn úr röðum heimakvenna, Eva Wium Elíasdóttir og Heiða Hlín Björnsdóttir hafa framlengt samninga sína við félagið.