Fara í efni
Íþróttir

Markmiðið að verða sterkasti maður heims

Akureyringurinn Stefán Karel Torfason sigraði um helgina í keppninni Sterkasti maður Íslands og ber því þann titil næsta árið. Hann fetar þar með í fótspor föður síns, Torfa Ólafssonar, sem sigraði í keppninni í tvígang á árum áður.

Stefán Karel, sem er 27 ára, var öflugur körfuboltamaður á sínum tíma; lék fyrst með Þór, síðan Snæfelli í Stykkishólmi og loks ÍR en fljótlega eftir að hann gekk til liðs við Reykjavíkurliðið neyddist Stefán til að hætta vegna ítrekaðra höfuðhögga. Í kjölfarið snéri hann sér að kraftaíþróttum, með góðum árangri.

„Ég þurfti að hætta í körfubolta þegar ég var þá 22 ára,“ sagði Stefán við Akureyri.net í gær. Það var mikil synd því hann er rúmlega tveir metrar á hæð og var mjög góður leikmaður; mjög sterkur leikmaður mætti segja, í fleiri en einni merkingu.

Spennandi

Keppnin um helgina var tvískipt, keppt var á Selfossi og Hveragerði á laugardaginn en á sunnudaginn í Reiðhöllinni í Víðidal í Reykjavík. Hafþór Júlíus Björnsson hefur borið titilinn Sterkasti maður Íslands síðustu 10 ár en var að keppa í kraftlyftingum erlendis um helgina og Stefán Karel segir að menn hafi því verið mjög spenntir að sjá hver næði titlinum að þessu sinni.

Keppt er í ýmiskonar kraftagreinum, ekki alltaf þeim sömu ár hvert, en ein grein hefur verið í keppninni frá upphafi; að ganga sem lengst með Húsafellshelluna, sem vegur 186 kíló.

„Keppnin var mjög spennandi því fyrir síðustu grein, Húsafellshelluna, var ég hálfu stigi á undan Eyþóri Ingólfssyni Melsteð. Maður þarf að lyfta hellunni upp af jörðinni, taka hana í fangið og ganga svo með hana eins langt og maður getur. Ég keppti síðastur í þeirri grein, fór 60 metra og vissi að það var nóg til að vinna keppnina.“

Stundin var líka söguleg. „Þetta er fyrsta aflraunamótið sem ég vinn en mér hefur gengið vel í keppni á þessu ári; ég varð í öðru sæti í Austfjarðatröllinu og þriðji í Vestfjarðavíkingnum,“ segir Stefán Karel.

Með sigrinum náði Stefán markmiði sem hann setti sér fyrir nokkrum árum. „Alveg frá því ég byrjaði í þessu sporti fyrir fjórum eða fimm árum hefur þetta verið sá titill sem mig hefur mest langað til að vinna. Þetta er elsti og virtasti titillinn í kraftasportinu hér heima.“

Vil verða sterkari en pabbi!

Stefán Karel segir engan vafa á því að Torfi faðir hans hafi verið mikill áhrifavaldur. „Algjörlega, það hefur alltaf verið kappsmál hjá mér að verða sterkari en pabbi! Hann setti rosalega háan standard en ég ætla samt að ná betri árangri en hann! Hann varð í fjórða sæti í keppninni Sterkasti maður heims og ég get ekki hætt fyrr en ég toppa það. Ég mun gera allt til að ná því,“ segir Stefán Karel.

Sigurinn um helgina tryggir Stefáni þátttökurétt á World Ultimate Strongman á næsta ári en hann vonast einnig til þess að fá tækifæri til að keppa um titilinn Sterkasti maður heims, í þeirri frægu keppni sem Íslendingum var svo kær árum saman en Jón Páll Sigmarsson og Magnús Ver Magnússon sigruðu báðir fjórum sinni í keppninni undir lok síðastu aldar.

Sterkasti maður heims – World Strongest man – er boðsmót. „Vonandi fær maður boð um að kíkja þangað,“ segir Stefán Karel og bætir við að í slíka keppni fari enginn bara til að vera með. Fái hann að taka þátt verði stefnan því ekki einungis að ná betri árangri en faðir hans á sínum tíma. „Maður vill auðvitað vinna. Það er lokamarkmiðið.“