Fara í efni
Íþróttir

Lögsækir stjórnanda Mike Show fyrir rógburð

Þórsarinn Srdjan Stojanovic í sigurleik gegn ÍR í vetur. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Srdjan Stojanovic, leikmaður Þórsliðsins í körfuknattleik, hefur ákveðið að lögsækja Huga Halldórsson, stjórnanda hlaðvarpsþáttarins The Mike Show, fyrir rógburð.

Hugi sagðist, í þættinum í gærkvöldi, hafa heyrt „að það hafi verið krísufundur klukkutíma fyrir leik [Þórs og Njarðvíkur í gær], þar sem upp hafi komist um veðmálasvindl.“ Hann nafngreindi Stojanovic og segir að á fundinum „hafi bara liðið komist að þessu og það hafi í rauninni verið skrúfað fyrir þetta, eins og ég skil þessar senur.“ 

Enginn fundur

Körfuknattleiksdeild Þórs vísar sögusögnum um meintan fund á bug. Hvorki hafi verið fundað með Stojanovic né neinum öðrum leikmanni liðsins og félagið geti ekki unað við að leikmaður þess sé vændur um veðmálasvindl án þess að það leggi orð í belg.

„Að nafngreina og ásaka leikmann opinberlega í fjölmiðlum án þess að hafa fyrir sér nokkur sönnunargögn kallar á að viðkomandi einstaklingur muni leita réttar síns með tilliti til meiðyrðamáls enda ásökunin grafalvarleg og ætti ekki á nokkurn hátt að vera tekið léttvægt,“ segir í yfirlýsingunni.

  • Smellið hér til að lesa yfirlýsingu körfuknattleiksdeildar Þórs.

„Heiðarlegir og hendum þessu í loftið“

Seinna í þættinum The Mike Show í gær sagðist Hugi ekki trúa þeim orðrómi sem hann talaði um, „en þetta var mjög hávært og ég heyrði af þessum krísufundi klukkutíma fyrir leik [...] Við vonum auðvitað að þetta verði bara rannsakað...“

Síðar sagði hann: „Það eru einhverjir fagmenn sem fara í þessa vinnu, við gerum ekkert annað en að segja ykkur það sem við heyrum og reynum að fá það staðfest, og yfirleitt er það nú staðfest – við erum bara heiðarlegir hér og hendum þessu bara í loftið því að það sem að ... Það voru of margir að tala um þetta, Mike, og þá svona tökum við það yfirleitt fyrir,“ segir hann við Mike þann, sem þátturinn er nefndur eftir.

Hugi sagði undir lokin: „Mér skilst að leikurinn hafi meira að segja verið flaggaður, sem þýðir að hann verði rannsakaður og það er þá bara eitthvað sem KKÍ tekur á og þetta fer í sinn farveg og vonandi er þetta bara eins mikill hestaskítur og það hljómar. En við seljum ekkert hér dýrara en við kaupum...“

Eftir að vefurinn Karfan.is fjallaði um málið í dag og greindi frá því að Stojanovic hygðist kæra Huga fyrir rógburð sendi þáttarstjórnandinn frá yfirlýsingu þar sem hann baðst afsökunar á ummælum sínum í þættinum. Stojanovic segist lítið gefa fyrir þá afsökunarbeiðni; viðkomandi sé fullorðinn og viti hvað hann hafi verið að segja. „Ég mun lögsækja hann og leita réttar míns fyrir dómstólum,“ segir Stojanovic við Akureyri.net. Hann geti ekki setið undir ummælunum og vilji hreinsa nafn sitt af þessum rógburði.

  • Smellið hér til að lesa yfirlýsingu Huga Halldórssonar