Fara í efni
Íþróttir

Loftur bestur hjá Þór, Elmar Þór efnilegastur

Loftur Páll Eiríksson, til vinstri, og Elmar Þór Jónsson.

Miðvörðurinn Loftur Páll Eiríksson var valinn besti leikmaður knattspyrnuliðs Þórs í sumar og vinstri bakvörðurinn Elmar Þór Jónsson efnilegastur. Það er stjórn knattspyrnudeildar félagsins sem velur.

Loftur Páll hefur spilað 190 meistaraflokksleiki, þar af 100 fyrir Þór – sá 100. var lokaleikur Íslandsmótsins í haust, 4:3 sigur á Magna á Grenivík, þar sem Loftur gerði eitt markanna. Áður hafði hann spilað fyrir Tindastól frá 2009 til 2014. 

„Eftir erfið meiðsli sumarið 2019 var Loftur frá æfingum og keppni næstum allt undirbúningstímabilið, en mætti öflugur til leiks aftur í sumar og átti fast sæti í liðinu sem miðvörður, en töluverð samkeppni var um þá stöðu,“ segir stjórn knattspyrnudeildar Þórs.

Elmar Þór, sem er 18 ára, lék fyrst í meistaraflokki 2018 og nú að baki 23 leiki með Þórsliðinu, þar af 17 í sumar.  Hann á jafnframt að baki 17 leiki með yngri landsliðum Íslands.