Fara í efni
Íþróttir

Lítur stoltur um öxl og hlakkar mikið til

Arnór Þór Gunnarsson snemma á meistaraflokksferlinum í leik með Þór gegn KA. Andstæðingarnir eru Jónatan Þór Magnússon, til hægri, og Þorvaldur Þorvaldsson. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Arnór Þór Gunnarsson, fyrrverandi landsliðsmaður í handbolta, lýkur ferlinum sem leikmaður á sunnudaginn. Keppnisskórnir fara sem sagt á hilluna síðdegis, að loknum heimaleik gegn Erlangen í síðustu umferð þýsku 1. deildarinnar, en strax að loknu sumarfríi smeygir Arnór sér í skótau þjálfarans; hann verður annar tveggja aðstoðarþjálfara Bergischer HC og aðalþjálfari liðs 16 ára leikmanna félagsins, eins og Akureyri.net greindi frá fyrr í dag.

  • Smellið hér til að sjá frétt Akureyri.net frá því í morgun

Arnór Þór, sem verður 36 ára í haust, hefur haft þann starf að leika handbolta í Þýskalandi síðustu 13 ár, fyrstu tvö með Bittenfeld í Stuttgart suður í Baden-Württemberg en síðustu 11 ár með Bergischer HC, norður í sambandslandinu Norðurrín-Vestfalíu.

Á 11 árum hefur Arnór gert alls um 1500 mörk í deildar- og bikarkeppninni fyrir Bergischer, þar af nákvæmlega 1001 mark í efstu deild – 1. Bundesliga. Það þóttu merkileg tímamót ytra, þegar hann gerði 1000. markið enda okkar maður sá fyrsti í sögu félagsins sem nær því takmarki. Félagið var stofnað árið 2006 þegar tvö voru sameinuð, LTW Wuppertal og SG Solingen. 

Fjölskyldan heima á Akureyri sumarið 2021. Arnór Þór Gunnarsson og Jovana Lilja Stefánsdóttir ásamt börnum þeirra, Díönu og Alex Þór. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

„Margir biðu mjög spenntir lengi eftir því að næði þúsund mörkum, aðallega blaðamenn,“ segir Arnór. „Þeir voru endalaust að hringja, það var eiginlega orðið svolítið þreytandi. Ég vildi einbeita að öðru en þessu, en skil auðvitað áhugann. Ég skal viðurkenna það.“

Mark númer 1.000 gerði Addi svo á útivelli gegn Rhein-Neckar Löwen, í SAP höllinni í Mannheim, fimmtudaginn 1. júní. 

Hann tekur gjarnan víti en vel var við hæfi að tímamótamarkið gerði þessi magnaði, örvhenti hornamaður, úr hægra horninu. „Það var mjög hefðbundið mark,“ segir Arnór aðspurður. „Ég stökk inn úr horninu og skaut upp í fjærhornið. Bara mjög eðlilegt!“ 

Mjög hefðbundið mark. Ég stökk inn úr horninu og skaut upp í fjærhornið, segir Arnór Þór um þúsundasta markið í efstu deild í Þýskalandi. Hér er hann um það bil að gera eitt slíkt snemma á ferlinum, í leik með Þór í íþróttahöllinni á Akureyri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Arnór Þór byrjaði að stunda íþróttir um svipað leyti og hann steig fyrstu skrefin! Algengt var að þeir bræður, Arnór Þór og Aron Einar, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, fylgdu föður þeirra, Gunnari Malmquist Gunnarssyni, á æfingar en hann þjálfaði yngri flokka Þórs í mörg ár. Spilaði líka í árafjöld með félaginu og er leikjahæstur allra Þórsara. Strákarnir voru kraftmiklir og fengu útrás með því að kasta eða sparka bolta.

Formlegur handboltaferill Arnórs hófst líklega þegar hann var fimm ára. Þá mætti drengurinn fyrst opinberlega á æfingu. Síðan eru liðin mörg ár og ferillinn er glæsilegur. Hann segist geta horft stoltur og glaður um öxl.

Axel, ég þarf að pissa!

Arnór Þór kom fyrst við sögu meistaraflokks Þórs aðeins 15 ára. „Þegar ég hugsa til baka finnst mér geggjað að ég hafi fengið að byrja svona ungur í meistaraflokki hjá Sigurpáli Árna [Aðalsteinssyni] og Axel [Stefánssyni] sem þjálfuðu okkur,“ segir hann. „Ég man eftir fyrsta leiknum eins og gerst hafi í gær.“

Það var laugardaginn 3. mars árið 2003; fyrir 20 árum og þremur mánuðum nánast upp á dag. Mótherjinn var Valur, sem hann átti síðar eftir að leika með í fjögur keppnistímabil. Spilað var í Íþróttahöllinni á Akureyri, liðin skildu jöfn, 28:28, en Arnóri tókst ekki að skora.

„Ég byrjaði á bekknum en þegar 10 mínútur voru búnar af seinni hálfleik sagði Axel mér að hita upp. Ég fór og hitaði upp á svæðinu aftan við tímavarðaborðið, en fann allt í einu að ég þurfti rosalega mikið að pissa! Ég tilkynnti Axel það og fékk skýr skilaboð: Drífðu þig!“

Leikmaðurinn ungi var greinilega mjög spenntur.

Tveir forráðamanna Bergischer HC færðu Arnóri Þór grip fyrir síðasta leik í tilefni þess að hann hefur gert 1.000 mörk í efstu deild, fyrstur leikmanna félagsins.

Mjög krefjandi

Sumarið 2006 gekk Arnór til liðs við Val. „Þar var ég í fjögur frábær ár. Það var mjög krefjandi og lærdómsríkt að flytja suður, rétt að verða 19 ára, búa einn og hugsa um sig sjálfur. En þetta var rosalega skemmtilegur tími, við unnum einn Íslandsmeistaratitil og tvo bikarmeistaratitla.“

Það var einnig afar krefjandi að flytja til Þýskalands sumarið 2010, segir hann. „Það var reyndar það erfiðasta sem ég hef nokkurn tíma gert. Kærastan flutti út með mér og það var svakalegt erfitt fyrir okkur bæði.“ Hvorugt kunni tungumálið en að nokkrum mánuðum liðnum höfðu þau aðlagast bærilega.

Fyrstu tvö árin voru þau Arnór Þór og Jovana Lilja Stefánsdóttir í Stuttgart en færðu sig síðan um set og hafa haldið kyrru fyrir á sama stað síðan, enda líður þeim geysilega vel þar, segir hann.

Arnór Þór og Bjarki Már Elíasson á Evrópumeistaramótinu í Svíþjóð í janúar 2020. Litli bróðir, knattspyrnukappinn Aron Einar „skaust“ þá frá Katar, þar sem hann vinnur sem knattspyrnu, til að sjá bróður sinn í einum leik.

Spenntur fyrir nýju verkefni

Eins og að framan greinir snýr Arnór Þór sér að þjálfun strax í sumar. „Það var fyrir næstum því tveimur árum sem þeir nefndu þetta fyrst; framkvæmdastjóri Bergischer spurði hvort ég hefði áhuga. Vissi að ég var að taka þjálfaranámskeið heima á Íslandi, við byrjuðum að tala saman og ég varð fljótlega mjög spenntur,“ segir hann.

„Hann talaði strax um að ég myndi fara inn í þjálfarateymið hjá meistaraflokki, mynda vinna við að klippa upptökur úr leikjum og hjálpa þjálfaranum að undirbúa liðið fyrir leiki, en ég var líka spurður að því strax þá hvort ég hefði áhuga á að koma að þjálfun yngri flokkanna.“

Það síðarnefnda þótti honum einnig freistandi og það verður nú að veruleika.  „Ég verð aðalþjálfari 16 ára liðsins. Það æfir bara fjórum sinnum í viku svo ég verð mestmegnis með aðalliðinu,“ segir hann, en finnst heillandi að fá tækifæri til að vinna með ungu leikmönnunum líka. 

Arnór Þór hefur lengi velt því fyrir sér að fara út í þjálfun og í janúar lauk hann æðstu þjálfaragráðu í alþjóðlegum handbolta, EHF Master Coach, ásamt valinkunnum hópi manna heima á Íslandi.

Góð ár með landsliðinu

Þegar Arnór Þór kvaddi landsliðið átti hann 120 landsleiki að baki. „Það var draumur minn þegar ég var lítill að spila fyrir íslenska landsliðið og það er magnað að hafa náð svona mörgum leikjum.“

Alfreð Gíslason valdi Arnór fyrst í æfingahóp landsliðsins árið 2007 en hann var fyrst valinn til að spila árið eftir þegar Guðmundur Guðmundsson var tekinn við. „Aron Kristjánsson valdi mig svo á fyrsta stórmótið, HM 2013 á Spáni, og hápunkturinn með landsliðinu var EM í Danmörku árið eftir þar sem við lentum í 5. sæti,“ rifjar hann upp.

Guðmundur Guðmundsson tók aftur við þjálfun landsliðsins 2018, „og hápunkturinn hjá mér persónulega var á HM í Þýskalandi 2019; árangur liðsins var reyndar ekkert frábær, við lentum í 14. sæti, en ég spilaði líklega best þá á landsliðsferlinum.“ 

Á síðasta stórmóti Arnórs, því níunda, HM í Egyptalandi 2021, bar hann fyrirliðabandið. „Ég var mjög þakklátur og er stoltur af því. Það var mikill heiður að vera fyrirliði.“

Ástæða þess að Arnór ákvað að segja skilið við landsliðið var sú að líkaminn þoldi ekki það álag sem fylgir því að spila bæði með því og félagsliði. Brjóskeyðing í hægri mjöðm var farin að há honum verulega; „mjöðmin þolir ekki að ég leiki á tveggja eða þriðja daga fresti eins og landsliðið gerir á stórmóti eins og EM,“ sagði Arnór Þór við Akureyri.net þegar hann tilkynnti um ákvörðunina á sínum tíma.

Arnór Þór ræðir við samherja sína á HM Egyptalandi árið 2021, þar sem hann var fyrirliði landsliðsins.

Tímamótin

Kveðjustund leikmannsins Arnórs Þórs rennur senn upp. Hann segir bless á sunnudaginn, eins og áður kom fram. Nefnir að stundin verði án efa eftirminnileg og tilfinningin jafnvel einkennileg. Foreldrar Arnórs Þórs, Jóna Arnórsdóttir og Gunnar Malmquist Gunnarsson, verða viðstödd lokaleikinn, svo og ein systra hans og æskuvinurinn Sindri Viðarsson.

„Það er oft talað um að þegar íþróttamenn hætti lendi þeir í einhvers konar tómarúmi. Ég hugsaði mikið um þetta framan af vetri en hef fundið síðustu fjóra eða fimm mánuði að ég er búinn að sætta mig við það að hætta. Nú hlakka ég aðallega til þess að fara að gera eitthvað nýtt – þótt það sé eiginlega ekkert nýtt!“ segir hann.

Bætir svo við: „Ég mun bera meiri ábyrgð á vissan hátt, sem þjálfari og er mjög spenntur fyrir þessu nýja verkefni; að fá að vinna með leikmönnum sem spila í bestu deild í heimi sem þjálfari og að hjálpa ungu strákunum. Ég veit að ég mun læra helling fyrsta árið sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks og aðalþjálfari 16 ára strákanna; til dæmis að klippa og greina leiki og svo fá þá dýrmætu reynslu að stjórna liði af bekknum. Ég hlakka mikið til.“