Lítið skorað þegar KA/Þór tapaði í Garðabæ
KA/Þór tapaði fyrir Stjörnunni um helgina í efstu deild kvenna í handbolta, Olís deildinni. Óvenju lítið var skorað í Garðabænum að þessu sinni; úrslitin urðu 19:16 eftir að Stjarnan hafði forystu í hálfleik, 11:6.
Vert er að geta þess að Rut Jónsdóttir lék ekki með vegna meiðsla og Unnur Ómarsdóttir var heldur ekki í leikmannahópnum.
Hildur Lilja Jónsdóttir og Nathalia Soares Baliana skoruðu mest fyrir KA/Þór, fjögur mörk hvor en Matea Lonac var besti maður liðsins í leiknum. Hún varði 15 skot – 34% þeirra skota sem komu á markið. KA/Þór er eftir sem áður í fimmta sæti með 12 stig að 16 leikjum loknum. Liðið hefur 12 stig, jafn mörg og Haukar sem hafa lokið 17 leikjum.
Sex efstu liðin komast í úrslitakeppnina.
Stelpurnar okkar eiga þessa leiki eftir í deildinni:
- KA/Þór – Selfoss
- HK – KA/Þór
- ÍBV – KA/Þór
- KA/Þór – Fram
- Valur – KA/Þór