Lionsfélagar héldu Hængsmót í 40. sinn
Hængsmótið var haldið í 40. skipti um síðustu helgi en þar reyna með sér keppendur úr ýmsum íþróttafélögum fatlaðra í boccia og borðtennis. Það var Lionsklúbburinn Hængur á Akureyri sem kom mótinu á fót á sínum tíma og hefur séð um það allar götur síðan.
Þátttakendur í ár voru liðlega 150 og á lokahófinu á laugardagskvöldið voru 250 manns. Jón Óskar Ísleifsson, góðvinur Akureyri.net, tók meðfylgjandi myndir.
Úrslit í boccia – einstaklingskeppni
Þroskahamlaðir:
1. Jósef W. Danielsson, NES
2. Unnur Marta Svansdóttir, Akur
3. Reynir Arnar Ingólfsson, Suðri
Hreyfihamlaðir:
1. Kolbeinn J. Skagfjörð, Akur
2. Hjalti Bergmann Eiðsson, ÍFR
3. Ingi Björn Þorsteinsson, ÍFR
BC 1 - 4:
1. Ingi Björn Þorsteinsson, ÍFR
2. Sigurður Smári Kristinsson, Þjótur
3. Aðalheiður Bára Steinsdóttir, Gróska
Rennuflokkur:
1. Kristján Vignir Hjálmarsson, Ösp
2. Karl Guðmundsson, Eik
Úrslit í boccia – sveitakeppni
Þroskahamlaðir
1. Snerpa – A: Sigurjón Sigtryggsson, Íris Gunnarsdóttir og Þórhallur Sigurðson
2. Eik – A: Helga Helgadóttir, Stefán Thorarensen og Baldvin Steinn Torfason
3. NES - B: Erla Sif Kristinsdóttir, Dóra Dís Hjartardóttir og Stefanía Guðnadóttir
Hreyfihamlaðir
1. ÍFR – A: Ingi Björn Þorsteinsson, Hjalti Bergmann Eiðsson og Kristín Andrea Friðriksdóttir
2. Akur – B: Kolbeinn Skagfjörð, Svava Vilhjálmsdóttir og Rósa Ösp Traustadóttir
3. Akur – A: Sigrún Björk Friðriksdóttir, Védís Elva Þorsteinsdóttir og Arnþór Ólafsson
Borðtennis
Opinn flokkur karla
1. Lukas, Akur
2. Daði Meckl, Akur
3. Júlíus Fannar Thorarensen, Akur
- Það var Akur á Akureyri sem fékk Hængsbikarinn að þessu sinni fyrir bestan samanlagðan árangur.
Mótið skipulagt til 2036!
„Þetta er alltaf jafn gaman og gefandi og maður skipuleggur sig með Hængsmótið í huga; fer ekki í sumarfrí þegar mótið er,“ segir Lionsmaðurinn Árni V. Friðriksson við Akureyri.net. Hann var einn þeirra sem stofnuðu til mótsins á sínum tíma og segist hafa misst af einu móti þessa fjóra áratugi.
Mótið er alltaf haldið sem næst 1. maí. Ekki er nóg með að menn skipuleggi sig með mótið í huga heldur hugsa Lionsmenn langt fram í tímann. Hið fjölmenna Öldungamót í blaki er jafnan á sama tíma og annað slagið haldið á Akureyri, til dæmis um síðustu helgi. „Eitt árið náðu blakararnir að panta Íþróttahöllina á undan okkur svo við urðum að halda Hængsmótið á nokkrum stöðum í bænum og ákváðum að það mætti ekki koma fyrir aftur. Við erum því búnir að skipuleggja Hængsmótið til ársins 2036 og eigum Höllina frátekna mótsdagana þangað til!“ segir Árni.