Leiður vegna þess að ég var með stóra drauma
„Ég er leiður yfir því hvernig þetta fór, vegna þess að ég var með stóra drauma,“ sagði Orri Hjaltalín við Akureyri.net í dag, en hann hætti í gær sem þjálfari meistaraflokks karla í knattspyrnu hjá Þór. Þetta er fyrsta tímabil Orra sem þjálfara liðsins. Hann var ráðinn til þriggja ára síðastliðinn vetur.
Orra var tilkynnt í gær að stjórnin hefði ákveðið að hann yrði ekki áfram með liðið eftir þetta keppnistímabil. „Ég hafði fundið að ekki var nægur stuðningur við mig hjá stjórninni og eftir að mér var tilkynnt þetta fannst mér rétt að stíga til hliðar strax,“ segir Orri.
Þórsliðið hefur valdið miklum vonbrigðum undanfarið og ekki skorað í síðustu sjö deildarleikjum. „Við lentum í alls konar veseni, meðal annars í miklum meiðslum. Við leyfðum Alvaro að fara heim en svo meiddust þrír sóknarmenn á einni viku og eru frá út tímabilið,“ segir Orri. Spánverjinn Alvaro Montejo, markahæsti leikmaður Þórs undanfarin ár, fékk að snúa aftur utan í lok júní og kvaddi með þremur mörkum í öruggum sigri á Fjölni á útivelli. Sá leikur var í áttundu umferð.
Þórsarar skoruðu 29 mörk í fyrstu 13 umferðunum en hafa ekki skorað eftir það, í sjö leikjum sem fyrr segir.
„Það voru mörg lítil atriði sem gengu ekki upp, því miður,“ segir Orri. „Ég er því leiður, en vil nota tækifærið og þakka leikmönnum, starfsfólki Hamars og stuðningsmönnum kærlega fyrir sumarið.“
Smellið hér til að lesa frétt Akureyri.net um Orra í gær.