Laufléttur sigur og Þór fór aftur á toppinn

Þórsarar unnu laufléttan sigur á HBH, 45:21, á heimavelli í gærkvöldi í Grill66 deildinnií handbolta, næst efstu deild Íslandsmótsins. Þetta var svokallaður skyldusigur því Þórsarar, sem stefna hraðbyri upp í efstu deild, fóru í efsta sæti með sigrinum en HBH – Handknattleiksbandalag Heimaeyjar – er neðst í deildinni.
Fyrirfram var vitað að leikurinn yrði ójafn. Þórsarar tóku strax forystuna en gestirnir voru þó ekki langt undan fram í miðjan fyrri hálfleik. Aðeins munaði tveimur mörkum (9:7) eftir 15 mín. voru liðnar en fljótlega skiptu Þórsarar um gír; þeir gerðu 13 mörk gegn 2 það sem eftir lifði hálfleiksins og að honum loknum var staðan því 22:9. Seinni hálfleikurinn var aðeins formsatriði eins og tölurnar bera með sér.
Aron Hólm Kristjánsson á auðum sjó í gær. Hann gerði sjö mörk í leiknum.
Með sigrinum fóru Þórsarar aftur á toppinn; þeir eru með 24 stig en Selfyssingar 23, þegar tvær umferðir eru eftir. Næsti leikur Þórsara er í Vestmannaeyjum á föstudaginn þar sem þeir mæta HBH aftur og í lokaumferðinni fá þeir HK2 í heimsókn, næst neðsta lið deildarinnar. Fari báðir leikirnir eftir bókinni og endi með sigri Þórs fagna Þórsarar sæti í efstu deild á ný í Höllinni á Akureyri laugardaginn 29. mars.
Línumaðurinn Sigurður Ringsted Sigurðsson horfir á eftir boltanum í mark Eyjamanna. Þetta var annað tveggja marka Sigurðar í gær.
Mörk Þórs: Oddur Gretarsson 9, Halldór Kristinn Harðarson 7, Aron Hólm Kristjánsson 7, Þórður Tandri Ágústsson 6, Arnór Þorri Þorsteinsson 4, Garðar Már Jónsson 3, Bjartur Már Guðmundsson 3, Sigurður Ringsted Sigurðsson 2, Heiðmar Örn Björgvinsson 2, Hafþór Már Vignisson 1, Ólafur Malmquist 1.
Varin skot: Kristján Páll Steinsson 14, Steinar Ingi Árnason 5.