Lára frá Þór/KA og leikur með HK í sumar
Knattspyrnukonan Lára Einarsdóttir er á leið í HK og leikur með Kópavogsliðinu í 1. deildinni í sumar. Lára, sem er 25 ára, starfar sem sjúkraþjálfari á Landspítalanum.
Lára fékk fá tækifæri með Þór/KA í fyrrasumar en átti afar farsælan feril með liðinu í áratug fram að því. Kom fyrst inn í liðið 2010, aðeins 15 ára. Hún varð tvisvar Íslandsmeistari, 2012 og 2017, og tók þátt í alls um 250 opinberum leikjum. Hún á að baki 156 leiki í efstu deild Íslandsmótsins með Þór/KA og gerði átta mörk. Hún var með í 21 bikarleik og gerði eitt mark, lék tvisvar um titilinn Meistari meistaranna og var sjö sinnum í liðinu í Evrópukeppni. Þá tók Lára þátt í 55 leikjum í deildabikarkeppninni og gerði tvö mörk. Hún lék á sínum tíma 19 sinnum með yngri landsliðunum og gerði tvö mörk.
Síðasti leikur Láru með Þór/KA, að minnsta kosti í bili, var 28. júlí í fyrra, þegar liðið vann KR 2:1 á Íslandsmótinu á Þórsvellinum.