Fara í efni
Íþróttir

Langt og strangt ævintýri í Tælandi

Hressir Akureyringar eftir þrekraunina í Tælandi! Frá vinstri: Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir, Rannveig Oddsdóttir, Halldór Hermann Jónsson og Þorbergur Ingi Jónsson.

Þorbergur Ingi Jónsson náði bestum árangri Akureyringanna fjögurra sem kepptu fyrir Íslands hönd á heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupum í Chiang Mai í norðurhluta Tælands í dag. Hann varð í 42. sæti í 80 kílómetra hlaupi; fór vegalengdina á 8 klukkustundum 45 mínútum og 47 sekúndum.

  • Rannveig Oddsdóttir hljóp einnig 80 km og varð í 54. sæti kvennakeppninnar, á 11 klukkustundum, 39 mínútum og 40 sekúndum.
  • Halldór Hermann Jónsson varð í 67. sæti í 40 km hlaupi á 4 klukkutímum, 31 mínútu og 57 sekúndum.
  • Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir hljóp einnig 40 kílómetra og varð í 59. sæti á 5 klukkustundum, 13 mínútum og 46 sekúndum.

Mjög erfitt í hitamollunni

„Mér fannst fyrstu 40 kílómetrarnir ótrúlega þægilegir miðað við það sem ég var búinn að gera ráð fyrir, jafnvel hátt í 50 kílómetra,“ sagði Þorbergur Ingi þegar Akureyri.net ræddi við hann í dag. „Það er mjög erfitt fyrir okkur Íslendingana að hlaupa í svona hita, við erum alls ekki vön því. Hér er um 30 stiga hiti og mikill raki. Undirlagið er líka aðeins öðruvísi en við eigum að venjast en það skiptir ekki máli; hitamollan er það erfiðasta,“ sagði Þorbergur Ingi.

„Við lögðum af staða eldsnemma í morgun og fyrri hluti hlaupsins var í töluverðri hæð. Það var sem sagt mikil hækkun snemma, þar var aðeins kaldara en niðri, smá gola og þá hlupum við inni í skógi þannig að maður var í skugga allan þann tíma. Seinni hlutann hlupum við svo mun neðar, í glampandi sól og 30 stiga hita. Það var ansi erfitt.“

Þorbergur varð í níunda sæti á heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupi í Frakklandi árið 2015. Gekk þá fáránlega vel eins og hann orðaði það í dag, en vegna hitans sagðist hann ekki hafa búist við ámóta árangri að þessu sinni. „Af því mér gekk svona vel fyrri hlutann er ég samt á því að það hefði verið alveg raunhæft að enda á meðal 30 efstu ef ég hefði náð að kæla mig aðeins betur, en ég lenti í hitasjokki og síðustu 25 kílómetrarnir voru mjög erfiðir og miklu rólegri en fyrri hlutinn. Ég er samt nokkuð sáttur, það er ekki hægt að reikna með því að eiga sitt besta hlaup í svona hita og mollu þegar maður þekkir svona aðstæður ekki vel.“

Mikil upplifun

„Mér líður vel en maður verður sennilega dálítið þreyttur í fótunum á morgun!“ sagði Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir við Akureyri.net í dag en hún hljóp 40 km sem fyrr segir. Þetta var frumraun hennar á heimsmeistaramóti. „Það var vel heitt og rakt – dálítið aðrar aðstæður en þær sem við höfðum við verið að æfa við heima!“

Konurnar hlupu fyrri hlutann í töluverðri hæð eins og karlarnir þannig að hitinn var ekki jafn þrúgandi og síðari hluta hlaupsins. „Framan af hlupum við inni í skógi þannig að við vorum í góðu skjóli frá sólinni en við klifruðum tvisvar mjög mikið. Mér gekk vel í fyrra klifrinu og hélt að hitt yrði þá ekki heldur mikið mál en þá var orðið miklu heitara og mun erfiðara að hlaupa. Þegar ég fór að hlaupa niður af toppnum varð mér bumbult og fékk magakrampa; ég hafði drukkið aðeins of mikið á síðustu drykkjarstöðinni. Það var því erfitt að hlaupa niður og síðustu átta kílómetrarnir voru mjög erfiðir. Þá var orðið mjög heitt, ég þurfti að hægja á mér og tíminn varð því ekki eins góður og ég hefði viljað. Ég er samt mjög ánægð með hvernig gekk miðað við aðstæður, hitinn er auðvitað miklu meira en maður er vanur og svo lengra klifur en heima og því lengra að hlaupa niður.“

Sigþóra sagði magnað að hlaupa í þessum tælenska skógi. „Ég er mjög ánægð að hafa tekið þátt í mótinu því maður mundi ekki upplifa svæðið  svona sem venjulegur túristi.“

Árangur Íslendinganna var sem hér segir, nöfn Akureyringanna feitletruð:

Karlar – 80 kílómetrar

42. Þorbergur Ingi Jónsson 8:45:47

72. Þorsteinn Roy Jóhannsson 9:42:21

83. Sigurjón Ernir Sturluson á 10:34:41

Konur – 80 kílómetrar

54. Rannveig Oddsdóttir 11:39:40

57. Elísabet Margeirsdóttir 11:53:42

Karlar – 40 kílómetrar

67. Halldór Hermann Jónsson 4:31:57

72. Þórólfur Ingi Þórsson 4:36:24

Konur – 40 kílómetrar

21. Andrea Kolbeinsdóttir 4:14:08

55. Íris Anna Skúladóttir 5:01:08

59. Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir 5:13:46