Landenbergue ekki meira með Þór í vetur
Svissneski bakvörðurinn Jérémy Landenbergue er með slitið krossband og leikur því ekki meira með körfuboltaliði Þórs á yfirstandandi tímabili.
Landenbergue kom til Akureyrar í nóvember, annar tveggja leikmanna sem komu þá í stað tveggja útlendinga sem sneru heim vegna meiðsla. „Jérémy meiddist aftan í vinstra læri á þriðju æfingu sinni með Þór en spilaði í gegnum meiðslin. Hann varð svo fyrir því óláni að slíta krossband í hægra hné í leiknum gegn KR þann 16. desember síðastliðinn,“ segir á heimasíðu Þórs.
„Jérémy náði að spila fjóra leiki með Þór og í þeim leikjum skoraði hann 10 stig að meðaltali í leik.“ Haft er eftir Bjarka Ármanni Odssyni, þjálfara Þórs, að hér sé á ferðinni góður drengur sem mikil eftirsjá sé að og leiðinlegt sé að hann hafi aldrei náð að sýna liðinu eða stuðningsmönnum hvað í honum býr.
„Við þökkum honum kærlega fyrir allt og óskum honum skjóts og góðs bata og velfarnaðar,“ segir á vef Þórs.