Kvaddi yngri flokka starfið með boltagjöf
Unglingalandsliðsmaðurinn Bjarni Guðjón Brynjólfsson kom færandi hendi á æfingar yngri flokka Þórs í gær þar sem hann færði unglingaráði 40 glænýja bolta að gjöf til notkunar á æfingum. Munu boltarnir koma til með að nýtast vel í 4. og 5.flokkum félagsins. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Þórs.
„Með þessu vildi Bjarni Guðjón þakka fyrir sinn tíma í yngri flokkum Þórs en hann er fæddur 2004 og er því að ganga upp úr 2.flokki í haust eftir að hafa farið upp í gegnum alla yngri flokka félagsins. Eins og flestir Þórsarar ættu að vita hefur Bjarni Guðjón verið lykilmaður í meistaraflokki Þórs undanfarin ár þrátt fyrir ungan aldur,“ segir á heimasíðunni.
„Unglingaráð færir Bjarna Guðjóni bestu þakkir fyrir gjöfina og eru stolt af hans framgangi en nú þegar hann útskrifast formlega úr yngri flokka starfinu er hann þegar kominn með 79 meistaraflokksleiki undir beltið auk tólf landsleikja fyrir U19 og U21.“
Félagsstefna og afreksstefna
„Í yngri flokkum Þórs er unnið til jafns eftir annars vegar félagsstefnu, sem miðar meðal annars að því að iðkendur verði félagslega sterkir, beri virðingu fyrir öðrum leikmönnum, þjálfurum, félagi og mótherjum, og hins vegar afreksstefnu, sem miðar meðal annars að því að finna einstaklinga sem hafa hæfileika til að skara fram úr í knattspyrnu og efla þá og styrkja til frekari afreka. Óhætt er að fullyrða að Bjarni Guðjón er öflugur fulltrúi yngri flokka starfs Þórs og óskum við honum alls hins besta í komandi verkefnum.“
Í fréttinni er minnt á að á morgun mun Bjarni leika sinn síðasta leik fyrir Þór, í bili hið minnsta, „þegar Þór mætir Grindavík í lokaumferð Lengjudeildarinnar en Bjarni var keyptur til Vals fyrr í sumar og mun ganga til liðs við Hlíðarendaliðið í haust.
Það er ekki úr vegi að hvetja Þórsara til að fjölmenna á síðasta leik sumarsins sem fram fer á VÍS-vellinum á laugardag klukkan 14:00 og hvetja Þórsliðið til sigurs í sínum síðasta leik á árinu.“