Fara í efni
Íþróttir

Kunni ekki að skalla í 3. flokki – nú á leið í atvinnumennsku

Brynjar Ingi Bjarnason, næsti atvinnumaður Akureyringa í knattspyrnu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Brynjar Ingi Bjarnason, varnarmaðurinn magnaði í knattspyrnuliði KA, er aðeins 21 árs en yfirvegaður og tignarlegur á velli. Hann hefur leikið afar vel síðustu misseri með liðinu og vakti mikla athygli víða eftir afar góða frammistöðu með landsliðinu á dögunum, strax og tækifæri gafst. Næsta víst er að hann verður orðinn atvinnumaður í íþróttinni áður en langt um líður. KA mætir Val í dag klukkan 16.00 á Dalvík, og ekki er loku fyrir það skotið að það verði síðasti heimaleikur Brynjars Inga með KA í bili.

Lecce á Ítalíu og Sotsjí í Rússlandi gerðu KA tilboð í Brynjar nýlega, eins og Akureyri.net greindi frá, fleiri félög hafa sýnt honum áhuga og fljótlega ætti að skýrast hvert leiðin liggur. Hann vill þó ekki tjá sig um það enn sem komið er.

Einbeiti mér að fótboltanum

„Staðan er bara sú að ég einbeiti mér að fótboltanum, ég veit að einhverjar þreifingar eru í gangi en KA og umboðsmaðurinn minn sjá algjörlega um það. Á meðan held ég bara áfram að gera mitt inni á vellinum; ég veit að ef ég geri það vel þá skilar það mér einhverju,“ sagði Brynjar Ingi þegar Akureyri.net settist niður með honum í gær.

Hann segir áhuga erlendra félaga og vangaveltur um þær ekki trufla sig.

„Nei, í raun ekki. Ég bjóst við að það myndi trufla mig miklu meira en það gerir, en þegar maður er mættur inn á völlinn gleymist allt svona.“

Brynjar Ingi var valinn í landsliðshópinn sem mætti Mexíkó, Færeyjum og Póllandi um daginn og var í byrjunarliðinu í öllum leikjum. Það voru fyrstu landsliðsskrefin; hann hafði aldrei verið valinn í yngri landslið.

„Það var geggjuð upplifun frá byrjun til enda,“ segir hann um landsliðsferðina. „Það má segja að hlutirnir hafi spilast mjög vel fyrir mig, margir duttu úr hópnum og sennilega var hann þunnskipaðastur af varnarmönnum. Svo þegar ég heyrði að [Ragnar Sigurðsson] væri farinn heim kom smá fiðringur í magann, því þá vissi ég að miklu meiri líkur væru á því að ég gæti fengið sénsinn til að sýna mig, sem varð raunin. Þá var ég bara staðráðinn í að gera eins vel og ég gat.“

Brynjar Ingi lék gríðarlega vel á móti Mexíkó en gerði ein slæm mistök sem kostuðu mark. Hann segir það ekki hafa verið góða tilfinningu, sem þó gleymdist fljótt.

„Já, það var ekki gott, en fyrir leik var sagt að ef maður gerði mistök ætti það að vera fyrir að reyna að þora. Ég tók það kannski aðeins of alvarlega! En ég fékk strax stuðning frá reyndari leikmönnum sem hjálpaði mikið og svo þegar mér var skipt út af fljótlega var tekið á móti mér með mjög jákvæðum hætti. Það hjálpaði líka rosalega mikið og ég gleymdi mistökunum mjög fljótt.“

Erfiðara að spila á Skaganum en í Póllandi

Brynjar Ingi kveðst í raun ekki hafa átt von á því að fá tækifæri með landsliðinu í þetta skipti. „Það kom kannski svolítið á óvart, en núna finnst mér mikill léttir að vera búinn með þennan kafla,“ segir Brynjar. Hann hafi sannað það fyrir sjálfum sér að hann geti leikið á þessum vettvangi.

KA-maðurinn ungi virkar jafnan afar rólegur og yfirvegaður á velli og segist vera það í raun. Til dæmis hafa honum liðið mjög vel á vellinum gegn Póllandi, þar sem Robert Lewandowski var í fremstu víglínu – að margra mati besti framherji heims um þessar mundir.

Hann segist í raun hafa verið stressaðri fyrir leikinn gegn Skagamönnum á Akranesi en í landsleikjunum. „Að vera inni á vellinum er allt öðru vísi en að horfa á leik utan frá, þá bara hugsar maður um að gera sitt. Mér fannst eiginlega erfiðara andlega að spila á Skaganum fyrir nokkrum dögum en í Póllandi. Aðstæður voru þannig að það gat í raun allt gerst en í Póllandi voru toppaðstæður þar sem maður gat einbeitt sér að því að spila sinn leik og þurfti ekki að hafa áhyggjur af einhverjum uppákomum vegna veðurs eða öðru slíku.“

Gengi KA ekki óvænt

KA-mönnum hefur gengið afar vel á Íslandsmótinu í sumar og með sigri á Val í dag yrði staðan frábær. Frammistaðan í sumar hefur ekki komið Brynjar Inga á óvart.

„Nei, sumarið hefur eiginlega bara verið eins og við lögðum upp með fyrir tímabilið. Markmiðið var alltaf að vera í einu að fjórum efstu sætunum, og sem efst auðvitað. Ég myndi segja að tímabilið hafi verið alveg upp á 9,5 hingað til nema Víkingsleikurinn hér heima.“

KA tekur á móti Íslandsmeisturum Vals klukkan 16.00 í dag á Dalvík, sem fyrr segir. Nái KA-menn að vinna verða þeir aðeins einu stigi á eftir meisturunum en ættu samt tvo leiki til góða.

„Þetta er eins mikill sex stiga leikur og hægt er. Við getum komið okkur í þægilega stöðu en hugsum ekkert um það; við mætum bara og gefum allt sem við getum í leikinn, sem lið. Svo gerist bara það sem gerist. Við hugsum bara um einn leik í einu; klárum hvern leik áður en við byrjum að hugsa um þann næsta.“

Stækkaði um 15 til 20 cm á einum vetri

Ferill Brynjars Inga hefur verið ævintýri líkastur síðustu ár; frábært dæmi um hve þolinmæði og þrautseigja skipta miklu máli. Hann segist til dæmis ekki hafa kunnað að skalla boltann í 3. aldursflokki, yfirleitt beygt sig frá boltanum!

„Já, ferillinn hefur verið skrautlegur. Ég var minnstur í liðinu í 3. flokki en var orðinn lang stærstur á yngsta ári í 2. flokki. Veturinn sem ég var í 10. bekk tók ég mikinn vaxtarkipp, stækkaði um 15 til 20 sentimetra.“

Brynjar lék á hægri kantinum í yngri flokkunum. „Það var ekki fyrr en mér var skipt inn á í fyrsta leik B-liðsins þegar ég var á yngsta ári í 2. flokki sem ég fór í aðra stöðu. Ég spilaði seinni hálfleikinn, Milo þjálfari spurði hvar mér þætti þægilegast að spila og vegna þess hve ég hafði stækkað mikið sagði ég að hann mætti bara velja og hann setti mig aftast á miðjuna.“

Brynjar kunni vel við sig í þessari nýju stöðu þótt hann hafi aldrei spilað þar áður. „Það var svo í fyrsta leik Íslandsmótsins sem ég spilaði í fyrsta skipti í vörn. Varnarmaður í A-liðinu meiddist snemma í leiknum og mér var skipt inná. Ég þurfti því að aðlagast þeirri stöðu án þess að hafa neina reynslu, ég hafði hvorki æft ná spilað í vörninni en gekk vel og fann strax að þetta væri staða sem hentaði mér. Eftir það hef ég aðallega verið þar en spilað sem bakvörður einstaka sinnum.“

Góð taug til Grenivíkur

Brynjar Ingi á ættir að rekja til Grenivíkur, Bjarni Áskelsson faðir hans lék í fjöldamörg ár með Magna, og þangað var Brynjar lánaður í tvö sumur; tvö fyrri árin í 2. aldursflokki. „Lánið til Magna var ein besta reynsla sem ég hef fengið,“ segir Brynjar. Þar kynntist hann til dæmis hörkunni sem fylgir leikjum í meistaraflokki. Páll Gíslason þjálfaði liðið bæði árin, það fyrra fóru Magnamenn upp úr þriðju efstu deild og léku því í þeirri næst efstu seinna sumarið – Inkasso deildinni, eins og hún nefndist þá.

„Tengingin við Grenivík skipti mig miklu. Ég er ættaður þaðan og pabbi spilaði allan sinn feril með Magna. Maður hefur mjög jákvæða taug til Grenivíkur.“

Vill taka skrefið sem fyrst

Brynjar fékk fyrst tækifæri í meistaraflokki KA á fyrsta ári Óla Stefáns Flóventssonar sem þjálfara og síðan hafa hlutirnir gerst býsna hratt. „Já, það hefur mikið gerst á stuttum tíma, en það er í raun ekkert erfitt fyrir mig. Umhverfið hér er þægilegt og rólegt, ég er mjög rólegur yfir þessu og mannskapurinn í kringum mig er mjög góður. Fyrsta tímabilið sem ég spilaði almennilega með KA kom Hallgrímur Jónasson til baka úr atvinnumennsku og tók mig eiginlega undir sinn verndarvæng. Hann er búinn að gera helling fyrir mig.“

Framtíðin er björt og Brynjar Ingi hlakkar til. Gamall draumur um að verða atvinnumaður í fótbolta virðist um það bil að rætast.

„Já, þetta er eitthvað sem alla dreymir um þegar þeir eru yngri og maður vill ekki bregðast sjálfum sér! Það væri flott að taka skrefið út sem fyrst, ég veit að ekki er allt komið við það, það þarf að aðlagast staðnum, sem gæti tekið nokkra mánuði og kannski orðið erfitt andlega. En eftir að maður nær að harka það af sér get ég vonandi farið að taka lítil og jákvæð skref – og gert úr þessu almennilega feril.“

Akureyringarnir þrír sem voru með landsliðinu gegn Mexíkó, Færeyjum og Póllandi á dögunum. Aron Einar Gunnarsson, Brynjar Ingi Bjarnason og Birkir Bjarnason.

Brynjar Ingi í leik KA og Víkings á Dalvíkurvelli fyrr í sumar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.