Fara í efni
Íþróttir

Kukobat fór á kostum og Þórsarar unnu

Aron Hólm Kristjánsson og Garðar Már Jónsson fagna Joven Kukobat þegar sigurinn var í höfn; Kukobat var frábær í leiknum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þórsarar unnu glæsilegan sigur á Valsmönnum, 25:22, í Olís deild Íslandsmótsins í handbolta í Íþróttahöllinni á Akureyri í gær. Þórsarar eru í harðri baráttu um að halda sæti sínu í deildinni og stigin því gríðarlega dýrmæt. Þeir eru enn í næst neðsta sæti, nú tveimur stigum á eftir Gróttu, þegar sex umferðir eru eftir. Tvö lið falla.

Fyrri hálfleikurinn var mjög jafn en Valsmenn höfðu eins marks forskot í hálfleik. Þeir komust tveimur mörkum yfir með því að gera fyrsta mark seinni hálfleiks en síðan kom ótrúlegur kafli Þórsstrákanna; þeir gerðu sjö mörk í röð og breyttu stöðunni úr 10:12 í 17:12. Það var markmaðurinn Jovan Kukobat sem lagði grunninn að þessari ævintýralegu sveiflu með stórbrotinni frammistöðu. Hann skellti í lás, eins og stundum er sagt til hátíðabrigða; Valsmenn fundu einfaldlega ekki leiðina framhjá honum.

Þórsarar héldu sínu striki, munurinn var fjögur til fimm mörk þar til í blálokin að Valsmönnum tókst að saxa á forskotið. Einhverjir í stúkunnu fengu áreiðanlega óvenju hraðan hjartslátt þegar þar var komið sögu; Þórsarar voru fjórum mörkum yfir, 24:20, þegar um tvær mínútur voru eftir, Valsmenn gerðu næstu tvö mörk og komust eftir það í hraðaupphlaup - fengu tækifæri til að minnka muninn í eitt mark - en Kukobat kórónaði frábæran leik með því að verja úr dauðafæri og Gísli Jörgen Gíslason gerði 25. mars Þórs á lokasekúndunni. Sannarlega sætur sigur í höfn og verðskuldaður.

Igor Kopyshynskyi gerði 10 mörk (3 víti) fyrir Þór, Krolis Stropus, Garðar Már Jónsson og Gísli Jörgen Gíslason gerðu 3 mörk hver, Arnþór Gylfi Finnsson og Þórður Tandri Ásgeirsson 2 hvor, Sigurður Kristófer Skjaldarson og Hákon Ingi Halldórsson 1 hvor.

Jovan Kukobat varði 17 skot (þar af 2 víti) skv. opinberri talningu - 44% þeirra skota sem hann fékk á sig.

Smellið hér til að sjá alla tölfræði úr leiknum