Fara í efni
Íþróttir

Krulluliðið Garpar Íslandsmeistari

Garpar, Íslandsmeistarar í krullu 2024. Frá vinstri: Birkir Björnsson, Árni Grétar Árnason, Ólafur Hreinsson, Hallgrímur Valsson, Kristján Bjarnason og Sigurgeir Haraldsson varamaður.

Íslandsmótinu í krullu lauk nýverið og var það lið Garpa frá krulludeild Skautafélags Akureyrar sem hampaði Íslandsbikarnum, eða Wallace-bikarnum eins og hann er nefndur. 

Krulla er enn sem komið er aðeins stunduð á Akureyri hér á landi og því eingöngu lið innan krulludeildar SA sem taka að jafnaði þátt í mótinu. Að þessu sinni var það lið Garpas em sigraði, en sex lið tóku þátt og var spiluð tvöföld umferð. Liðið Ice Hunt hafnaði í 2. sæti og Grísir í því þriðja.

Keppt er um svokallaðan Wallace-bikar, sem gefinn var af hjónum af vestur-íslenskum ættum í Seattle í Bandaríkjunum í tilefni af vígslu Skautahallarinnar á Akureyri árið 2000. Wallace-hjónin kynntu krulluíþróttina fyrir Íslendingum og eru í raun upphafsfólk íþróttarinnar hér á landi. 

Iðkendum í krullu hefur fjölgað lítillega undanfarið, en aðstöðuleysi stendur íþróttinni fyrir þrifum að því er fram kemur í frétt krulludeildarinnar. Krullufólk hefur aðeins eitt kvöld í viku til að stunda sína íþrótt. „Bætt aðstaða sem þýðir sér hús fyrir krullu myndi breyta öllu fyrir íþróttina. Krullarar hafa lengi beðið eftir því að fá sína sér aðstöðu þar sem krulla á skautasvelli er allt önnur íþrótt heldur en að vera mér sér svell fyrir krullu,“ segir meðal annars í frétt krulludeildarinnar.

Mikill áhugi á Ice Cup

Krulludeildin hefur nær því á hverju ári frá 2004 haldið alþjóðlegt krullumót í Skautahöllinni á Akureyri um eða upp úr mánaðamótum apríl-maí. Mótið hefur jafnan verið vinsælt meðal erlends krullufólks og hefur ásókn að utan farið vaxandi undanfarin ár. Nú er svo komið að mótið fyllist um leið, eða jafnvel áður en opnað er fyrir skráningar og lið sem skrá sig á biðlista og/eða óska eftir skráningu á næsta eða þarnæsta ári ef þau komast ekki að strax. 

Ice Cup verður haldið dagana 2.-4. maí og munu 26 lið taka þátt, þar af 19 erlend með samtals um eitt hundrað keppendum. Flest erlendu liðanna koma frá Kanada og Bandaríkjunum, en einnig eru skráð lið frá Noregi og fleiri löndum. Mótið er stærsti viðburður í starfsemi krulludeildar SA á hverju ári enda liggur mikil vinna að baki því að halda krullumót á skautasvelli. Venjan hefur verið að krulludeildin fái svellið alveg út af fyrir sig í um vikutíma fyrir mót og á meðan á því stendur þar sem sjálfboðaliðar á vegum deildarinnar vinna dagana fyrir mót að því að breyta skautasvelli í krullusvell. Breytingin felst einkum í því að hefla niður svellið, flæða vatni yfir og ná því alveg jöfnu, en síðan er sérstakur íshefill og úðunarbúnaður notuð til að útbúa svellið eins og þarf fyrir rennslið á krullusteinunum. 

Akureyri.net fjallaði um það í fyrra þegar krullufólk vann að undirbúningi svellsins fyrir Ice Cup 2023 - sjá hér.


Akureyri.net leit við í Skautahöllinni í fyrravor þegar krullufólk undirbjó svellið fyrir Ice Cup. Hér eru þeir Árni Grétar Árnason og Hallgrímur Bóas Valsson að störfum, en þeir eru báðir í Íslandsmeistaraliði Garpa 2024. Mynd: Haraldur Ingólfsson.