Kristófer með tvö mörk í fyrsta sigri Þórs
Þór og KA hafa bæði lokið keppni í Lengjubikarkeppninni í knattspyrnu, alvöru æfingamóti sem KSÍ heldur jafnan á þessum árstíma. Síðustu leikirnir í riðlunum fóru fram um helgina. Þór/KA á eftir einn leik í Lengjubikarkeppni kvenna.
KA varð í 2.-3. sæti 4. riðils A-deildar og Þór í 4. sæti 2. riðils A-deildar. Efstu lið hvers riðlanna fjögurra fara í undanúrslit.
- Fjölnir – Þór 1:2
Það var hinn 18 ára gamli Kristófer Kristjánsson sem gerið bæði mörk Þórsara þegar þeir mættu liði Fjölnis í Egilshöll á föstudagskvöldið. Kristófer skoraði fyrst á 11. mínútu og seinna markið snemma í seinni hálfleik. Fjölnir minnkaði muninn í blálokin með marki úr vítaspyrnu.
Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.
Þórsarar lentu í fjórða sæti með fimm stig; unnu einn leik, gerðu tvö jafntefli og töpuðu tveimur leikjum.
- Valur – Þór/KA 7:0
Liðin mættust á Valsvellinum á Hlíðarenda á laugardaginn og Stelpurnar okkar sáu vart til sólar eins og tölurnar gefa til kynna. Síðasti leikur þeirra í riðlakeppninni verður næsta laugardag gegn Fylki í Boganum.
Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.
- KA – Selfoss 2:3
KA tapaði í Boganum fyrir Selfossi, 3:2. Gestirnir komust í 2:0 á fyrsta hálftímanum en Nökkvi Þeyr Þórisson minnkaði muninn úr víti rétt fyrir lok fyrri hálfleiks. Selfyssingar bættu við marki strax í upphafi seinni hálfleiks og Steinþór Freyr Þorsteinsson gerði seinna mark KA á 75. mínútu.
Smellið hér til að sjá leikskýrsluna
KA endaði í 2.-3. sæti í 4. riðli A-deildar, vann tvo leiki, gerði tvö jafntefli og tapaði einum. Fékk átta stig eins og Fylkir en FH vann riðilinn með 13 stig.