Komast Þórsarar í úrslitakeppnina?
Í kvöld fæst úr því skorið hvort Þórsarar komast í úrslitakeppni Íslandsmótsins í körfubolta, Domino‘s deildarinnar. Þeir taka á móti Haukum í lokaumferð deildarkeppninnar í Íþróttahöllinni klukkan 19.15
„Við erum spenntir fyrir leiknum í kvöld og það er mikill hugur í mönnum að tryggja sætið í úrslitakeppninni,“ sagði Bjarki Ármann Oddsson, þjálfari Þórs, við Akureyri.net í dag.
Eftir erfitt gengi undanfarið vann Þórsliðið frækinn sigur á nafna sínum, Þór frá Þorlákshöfn, á útivelli á föstudaginn. „Sigurinn á nöfnum okkur var gríðarlega mikilvægur til að tryggja okkur sætið í deildinni,“ sagði Bjarki.
Baráttan í neðri hluta deildarinnar er ótrúlega jöfn; sigurinn í Þorlákshöfn tryggði Þórsurum áfram sæti í deildinni, þeir gætu náð 7. eða 8. sætinu en gætu líka misst af sæti í átta liða úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn. Það veltur á úrslitum kvöldsins.
Haukar eru fallnir og í kvöld kemur í ljós hvort það verður lið Njarðvíkur eða Hattar sem fylgir þeim niður. Njarðvíkingar eiga engu að síður enn möguleika á að komast í úrslitakeppnina. Því er ljóst að spennan verður í hámarki.
Leikirnir kvöldsins, sem hefjast allir klukkan 19.15, eru þessir:
- Þór – Haukar
- KR – ÍR
- Höttur – Keflavík
- Tindastóll – Stjarnan
- Njarðvík – Þór Þorlákshöfn
- Valur – Grindavík
Smellið hér til að sjá stöðuna í deildinni.
Leyfilegt er að hleypa 200 áhorfendum á leikinn í kvöld og verða allir miðar skráðir á nafn, kennitölu og símanúmer. Þórsarar hvetja fólk til að kaupa miða í gegnum appið stubbur.app. Hver miði kostar 2.000 krónur.
Klukkutíma fyrir leik verða grillaðir hamborgarar og drykkir seldir á vægu verði.
Fyrir þá sem ekki komast í Höllina er rétt að benda á að hægt að horfa á leikinn í beinni útsendingu á sjónvarpsrás Þórs og kostar það 1.000 krónur. Smellið hér til að komast þangað.