Kolbeinn Höður bætti eigið Íslandsmet í 200m
Akureyringurinn Kolbeinn Höður Gunnarsson bætti eigið Íslandsmet í 200 metra hlaupi í dag þegar hann fór vegalengdina á 20,91 sekúndu. Kolbeinn settið metið á Norðurlandameistaramótinu sem fram fer um helgina í Kaupmannahöfn. Hann varð í þriðja sæti í greininni. Kolbeinn, sem keppir nú fyrir FH, setti gamla metið – 20,96 sekúndur – 17. mars árið 2017.
Kolbeinn Höður varð annar í 100 metra hlaupi í gær á NM. „Hann er í stórkostlegu formi og sýndi það í dag þegar hann hljóp á 10,29 sek. (+2.4) sem skilaði honum öðru sætinu í 100m hlaupi karla,“ sagði á heimasíðu Frjálsíþróttasambands Íslands í gær. Tíminn var mun betri en gildandi Íslandsmest Ara Braga Kárasonar, sem er 10,51 sek., en meðvindur var yfir leyfilegum mörkum til að fá Íslandsmet staðfest; vindur má ekki vera meira en 2 metrar á sekúndu en var 2,4.