Fara í efni
Íþróttir

Katla Björg í 65. sæti – Gígja á HM í göngu

Katla Björg Dagbjartsdóttir, til vinstri, á HM í Frakklandi og Gígja Björnsdóttir, sem tekur þátt í HM í Slóveníu.

Katla Björg Dagbjartsdóttir úr Skíðafélagi Akureyrar varð í 65. sæti í svigi á heimsmeistaramótinu í alpagreinum á laugardag. Áður hafði hún keppt í stórsvigi en náði ekki að ljúka fyrri ferðinni.

Mótið fór fram í Frakklandi, konur kepptu í Méribel en karlar í Courchevel.

Katla Björg sem var með rásnúmer 68 í stórsviginu komst ekki alla leið í mark í fyrri ferð eins og áður segir og var því úr leik. Henni hlekktist á neðarlega í brautinni. Í sviginu var Katla Björg með rásnúmer 59. „Hún endaði að í 65. sæti af 122 keppendum og vann sér þar með ekki inn rétt til þess að fá að taka þátt í seinni ferðinni. Þar með er þátttöku Kötlu Bjargar lokið í ár en þetta var í annað skiptið sem hún tekur þátt á HM,“ segir á vef Skíðasambandsins.

Að móti loknu hélt Katla Björg til Austurríkis til áframhaldandi æfinga með liði sínu, Lowlanders.

Heimsmeistaramótið í skíðagöngu hefst á morgun í Planica í Slóveníu og þar eiga Akureyringar einnig fulltrúa. Gígja Björnsdóttir keppir í 5km göngu á miðvikudaginn.