KA/Þór vann nauman sigur á Stjörnunni
Íslandsmeistarar KA/Þórs sigruðu Stjörnuna í dag, 27:25, í Olís deild Íslandsmótsins í handbolta í Garðabæ.
Jafnt var nánast á öllum tölum í fyrri hálfleik, heimaliðið komst þó tveimur mörkum yfir, 14:12, en Stelpurnar okkar jöfnuðu áður en hálfleiknum lauk. Staðan 14:14 í hálfleik. Þær tóku svo forystu strax í upphafi seinni hálfleiks og voru einu til tveimur mörkum yfir þar til Stjarnan jafnaði metin um miðjan hálfleikinn, 19:19, en KA/Þór náði yfirhöndinni fljótlega aftur og hélt sínu striki.
Stjarnan minnnkaði muninn niður í eitt mark á síðustu mínútunni, en Rut Jónsdóttir kórónaði frábæra frammistöðu þegar hún gerði síðasta mark leiksins eftir að hafa brotist í gegnum vörn heimaliðsins, í síðustu sókn KA/Þórs.
KA/Þór er nú í þriðja sæti með 17 stig að 13 leikjum loknum. Valur er með 20 stig en hefur lokið 15 leikjum og Fram er á toppnum sem fyrr, með 23 stig eftir 14 leiki. Með sigri í leikjunum tveimur sem KA/Þór á til góða – gegn HK og ÍBV á útivelli – fer liðið upp í annað sæti.
Mörk KA/Þórs: Rut Arnfjörð Jónsdóttir 9 (3 víti), Martha Hermannsdóttir 6 (5 víti), Rakel Sara Elvarsdóttir 4, Aldís Ásta Heimisdóttir 3, Unnur Ómarsdóttir 2, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 2, Ásdís Guðmundsdóttir 1.
Sunna Guðrún Pétursdóttir varði 5 skot (26%) og Matea Lonac 2 (15%).