Fara í efni
Íþróttir

KA/Þór steinlá og fer í frí – 27 marka sveifla

Frábærar í síðasta leik en höfðu ekki erindi sem erfiði í dag. Frá vinsti: Nathalia Soares Baliana, Matea Lonac og Ida Hoberg. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA/Þór steinlá fyrir Stjörnunni, 33:22,  í síðasta leik liðanna í rimmu um sæti í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í handbolta í dag. Sveiflan frá síðasta leik er ótrúleg; Stelpurnar okkar léku þá frábærlega bæði í sókn og vörn og unnu með 16 marka mun, 34:18, en annað var upp á teningnum í dag. Nú voru það leikmenn Stjörnunnar sem léku við hvern sinn fingur og sigruðu mjög örugglega.

KA/Þór er þar með farið í sumarfrí en Stjarnan leikur við Val í undanúrslitunum.

Stjarnan komst í 3:0 en eftir að KA/Þór fór í gang var fyrri hálfleikurinn jafn allt þar til tæpar 10 mín. voru eftir að heimamenn gáfu í og voru fjórum mörkum yfir í hálfleik, 14:10. Fljótlega var ljóst hvert stefndi eftir að leikar hófust á ný; Stjarnan færðist hægt og bítandi nær markmiðinu en gestirnir að sama skapi fjær. Munurinn varð mestur 12 mörk, 28:16 og 33:21, og 11 í lokin sem fyrr segir.

Fyrsta viðureign Vals og Stjörnunnar verður á laugardaginn. Sama dag hefst einnig ÍBV og Hauka um sæti í úrslitum Íslandsmótsins.

Rut Jónsdóttir var ekki með KA/Þór í dag vegna meiðsla heldur skráð sem liðsstjóri á leikskýrslu. Hún var heldur ekki með í stórsigrinum í KA-heimilinu en slík ævintýri gerast vart aftur. 

Mörk KA/Þórs: Ida Hoberg 8, Lydía Gunnþórsdóttir 4 (2 víti), Nathalia Soares Baliana 2, Anna Þyrí Halldórsdóttir 2, Aþena Einvarðsdóttir 2, Anna Mary Jónsdóttir 1, Kristín A. Jóhannsdóttir 1, Hildur Lilja Jónsdóttir 1, Sunna Katrín Hreinsdóttir 1.

Varin skot: Matea Lonac 14, 31,8%

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina