KA/Þór steinlá fyrir Val og mætir Stjörnunni
Eftir leiki helgarinnar í Olís deild kvenna í handbolta, efstu deild Íslandsmótsins, er ljóst að Stelpurnar okkar í KA/Þór mæta Stjörnunni í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. KA/Þór steinlá fyrir Val að Hlíðarenda í síðustu umferð deildarinnar um helgina, 33:19 eftir að staðan var 18:7 í hálfleik.
Fyrsta umferð úrslitakeppninnar kvenna hefst mánudaginn 17. apríl. Tvö efstu lið deildarinnar, ÍBV og Valur, sitja hjá en annars vegar leika Stjarnan (3. sæti) og KA/Þór (6.) um sæti í undanúrslitum, hins vegar Fram (4.) og Haukar (5.)
Sigur Vals á KA/Þór var afar auðveldur; tölurnar segja allt sem segja þarf. KA/Þór gerði tvö fyrstu mörk leiksins en síðan tóku Valsmenn öll völd. Í stuttu máli sagt náðu leikmenn Akureyrarliðsins sér ekki á strik, sumir voru reyndar mun skárri en aðrir. Nathalia Soares Baliana gerði til að mynda eitt mark úr 10 skotum.
Mörk KA/Þórs: Rut Jónsdóttir 6, Ida Margrethe Hoberg 4, Hildur Lilja Jónsdóttir 3, Lydía Gunnþórsdóttir 2, Júlía Björnsdóttir 1, Anna Mary Jónsdóttir 1, Telma Lísa Elmarsdóttir 1, Nathalia Soares Baliana 1.
Varin skot: Matea Lonac 5, Sif Hallgrímsdóttir 4.
Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.