Fara í efni
Íþróttir

KA/Þór með stórsigur og áfram á toppnum

Norska skyttan Susanne Patterson í fyrsta leik sínum með KA/Þór, þegar þær mættu Haukum 2 í fyrstu umferð mótsins. Sú norska skoraði 12 mörk í dag, jafn mörg mörk og allt hitt liðið til samans. Mynd: Þórir Ó. Tryggvason.

KA/Þór er áfram á toppi næstefstu deildar kvenna í handknattleik, Grill 66 deildinni, eftir 20 marka sigur á Berskerkjum í dag. Norska skyttan í liði KA/Þórs, Susanne Pettersen, skoraði jafn mörg mörg og andstæðingarnir samanlagt og var langmarkahæst í liði KA/Þórs. Sif Hallgrímsdóttir varði 19 skot, eða rúm 61% þeirra skota sem hún fékk á sig.

Það þarf ef til vill ekki að fara mörgum orðum um leik sem endar 12-32. KA/Þór hafði yfirburði frá byrjun og skoruðu stelpurnar til að mynda sex fyrstu mörk leiksins. Upp frá því hélt svo áfram að draga í sundur með liðunum jafnt og þett út allan leikinn. Forystan var 13 mörk eftir fyrri hálfleikinn, 17-6, og aldrei spurning um hvort liðið myndi hirða stigin tvö sem í boði voru. Lokatölur urðu svo 32-12.

Berserkir

Mörk: Auður Margrét Pálsdóttir 3, Birta Líf Haraldsdóttir 2, Brynja Dröfn Ásgeirsdóttir 2, Sandra Björk Ketilsdóttir 2, Arna Sól Orradóttir 1, Birta Dís Lárusdóttir 1, Þórunn Jóhanna Þórisdóttir 1.
Varin skot: Sólfeig Katla Magnúsdóttir 9, María Ingunn Þorsteinsdóttir 4 (28,9%).
Refsimínútur: 10.

KA/Þór

Mörk: Susanne Pettersen 12, Hildur Magnea Valgeirsdóttir 6, Aþena Einvarðsdóttir 3, Agnes Vala Tryggvadóttir 2, Anna Þyrí Halldórsdóttir 2, Kristín A. Jóhannsdóttir 2, Selma Sól Ómarsdóttir 2, Tanja Dögg Baldursdóttir 2, Telma Lísa Elmarsdóttir 1. 
Varin skot: Sif Hallgrímsdóttir 19 (61,3%).
Refsimínútur: 2.

KA/Þór trónir áfram á toppi Grill 66 deildarinnar með níu stig úr fimm leikjum. Fram 2 kemur næst með átta stig og þá HK og Afturelding með sjö. Næsti leikur liðsins í deildinni er heimaleikur gegn FH 3. nóvember. Þremur dögum síðar fá stelpurnar Olísdeildarlið Stjörnunnar í heimsókn norður í bikarkeppninni, Powerade-bikarnum.