Fara í efni
Íþróttir

Karlalið Þórs í körfubolta hefur leik í kvöld

Þórsliðið heldur inn í veturinn undir stjórn nýs þjálfara. Þröstur Leó Jóhannsson, til hægri, handsalar hér samning sinn við Stefán Þór Pétursson, formann körfuknattleiksdeildar Þórs. Mynd: thorsport.is.

Karlalið Þórs í körfubolta hefur leik í 1. deildinni í kvöld þegar liðið mætir Selfyssingum í Vallaskóla á Selfossi. Leikurinn hefst kl. 19:15.

Nokkrar breytingar hafa orðið á liðinu frá því í fyrra, erlendu leikmennirnir farnir og nýir komnir í staðinn. Einn þeirra er reyndar ekki alveg nýr í herbúðum Þórs því Þórsarar hafa fengið aftur til liðs við sig hörkutólið Andrius Globys, sem spilaði með liðinu veturinn 2020-21 við góðan orðstír. Þá hefur liðið einnig fengið til liðs við sig tvíburana frá Sauðárkróki, Orra Má og Veigar Örn Svavarssyni, sem spiluðu nokkra leiki með liðinu sem lánsmenn í fyrravetur.


Andrius Globys og Tim Dalger verða að líkindum lykilleikmenn í liði Þórs í vetur.

Þórsliðið endaði veturinn nokkuð vel í deildarkeppninni í fyrra vann marga leiki á lokasprettinum og náði að hífa sig upp í 5. sæti deildarinnar. Liðin í 2.-9. sæti fóru í úrslitakeppni um það hvaða lið fylgdi efsta liðinu upp í úrvalsdeildina. Þór mætti Skallagrími í fyrstu umferðinni og úr varð æsispennandi einvígi sem Þórsarar unnu, 3-2. Næstu andstæðingar voru ÍR-ingar í undanúrslitum og þar höfðu ÍR-ingar betur, 3-0. 

Nýr þjálfari hefur tekið við liðinu. Óskar Þór Þorsteinsson, sem þjálfaði Þórsliðið undanfarin tvö tímabil, hætti með liðið í fyrravor og tók við liði ÍA. Í hans stað er kominn Þröstur Leó Jóhannsson, Keflvíkingur sem spilaði með Þór fyrir nokkrum árum.


Baldur Örn Jóhannesson, fyrirliði Þórs, og Smári Jónsson (t.v.) verða báðir áfram í eldlínunni með Þórsliðinu í 1. deildinni í vetur. Mynd: thorsport.is - Palli Jóh.

  • Stöðutafla og leikjadagskrá (kki.is)
  • Niðurstaðan í fyrra: 5. sæti í deildinni, 11 sigrar, 11 töp. Sigur gegn Skallagrími í 1. umferð úrslitakeppni, 3-2, tap gegn ÍR í undanúrslitum, 0-3.

Komnir

  • Andrius Globys
  • Orri Már Svavarsson frá Tindastóli
  • Tim Dalger frá háskólaliðinu Saint Louis Billikens
  • Veigar Örn Svavarsson frá Tindastóli

Farnir

  • Harrison Butler
  • Jason Gigliotti til Grindavíkur