Karlalið Þórs af stað í Hólminum í kvöld
Karlalið Þórs í körfubolta hefur leik á Íslandsmótinu í kvöld þegar strákarnir mæta liði Snæfells í Stykkishólmi, í næstu efstu deild. Leikurinn hefst kl. 19.15.
Þórsarar mæta með öflugra lið en á síðasta tímabili og reynslunni ríkari að mati Óskars Þórs Þorsteinssonar sem þjálfar Þórsara áfram. Hann segir undirbúningstímabilið hafa gengið vel, kjarni heimamanna hafi æft í allt sumar og liðið fullmannað í ágúst. „Strákarnir eru heilt yfir í góðu standi og klárir í tímabilið þótt auðvitað séu alltaf eitthvað um smávægileg meiðsli,“ segir Óskar Þór á heimasíðu félagsins.
Óskar Þór kveðst mjög ánægður með viðbæturnar við hópinn og breiddin sé meiri.
„Erlendu leikmennirnir hafa sýnt okkur á undirbúningstímabilinu að þeir hafi alla burði til að vera með betri leikmönnum deildarinnar og þá sérstaklega Harrison Butler. Hann er risa biti, hann spilaði fyrir sterkt [lið í 1. deild] í háskólaboltanum í Bandaríkjunum og var valinn í úrvalslið Wac-deildarinnar í fyrra. Harry er rosalega mikill íþróttamaður og getur skapað sér og öðrum góð skot hvar sem er á vellinum. Hann er líka með frábærann smekk. Hann hafði samband við okkur að fyrra bragði og vildi spila fyrir okkur, en hann var að giftast stelpu frá Akureyri í sumar,“ segir Óskar Þór.
Þrír uppaldir Þórsarar sem áfram verða í lykilhlutverkum að sögn Óskars Þórs, þjálfara. Frá vinstri: Baldur Örn Jóhannesson, Smári Jónsson og Kolbeinn Fannar Gíslason. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson
Um hina erlendu leikmennina segir Óskar Þór:
- Jason Gigliotti er stór og sterkur miðherji sem mun styrkja okkur helling í baráttunni inn í teig, sérstaklega varnarlega. Jason er einstaklega lunkinn frákastari og munu mörg lið verða í vandræðum með halda honum frá sóknarfráköstunum.
- Michael Walcott bætist einnig í hópinn en hann er 34ra ára áhugamaður sem var að flytja norður. Ég mæli sérstaklega með því að fylgjast með honum í upphitun en hann er með rosalegann stökkkraft þrátt fyrir aldur og mun bjóða upp á troðslu sýningar fyrir leik. Mike kemur með reynslu inn í hópinn og erfitt væri að finna mann sem hefur meiri ástríðu en hann þegar kemur að körfubolta. Mike hefur búið á Íslandi í þrjú ár og fellur því undir þriggja ára regluna, en hún felur í sér að leikmenn sem hafa búið á Íslandi samfleytt í þrjú ár eða meira geta spilað án takmarkana.
Þjálfarinn er einnig mjög spenntur fyrir að vinna með íslensku strákunum. Tveir hafa bæst í hópinn og verða mikilvægir, að hans sögn, en „ég er þó srstaklega spenntur að sjá hvernig íslenski kjarninn okkar kemur inn í tímabilið en þeir hafa verið duglegir að æfa í sumar. Við tókum þá ákvörðun í fyrra að spila okkar strákum meira og allt bendir til þess að við munum uppskera fyrir það í ár. Baldur [Örn Jóhannesson], Kolbeinn [Fannar Gíslason] og Smári [Jónsson] munu allir vera áfram í lykilhlutverki í ár og með sterkari atvinnumenn á vellinum munu fleiri auðveld tækifæri skapast fyrir þá,“ segir Óskar meðal annars.
Smellið hér til að sjá ítarlega umfjöllun á heimasíðu Þórs.