Fara í efni
Íþróttir

Karlalið SA tekur á móti Fjölni í dag

Andri Már Mikaelsson hefur oft hampað Íslandsbikarnum. Hér er hann vorið 2021 þegar SA tryggði sér titilinn. Árið eftir réðust úrslitin í leik fyrir sunnan og síðastliðið vor fór bikarinn suður eftir að SR vann SA í oddaleik á Akureyri. SA-menn vilja gjarnan koma í veg fyrir að það gerist aftur. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.


Karlalið SA tekur á móti liði Fjölnis í Hertz-deildinni í Skautahöllinni á Akureyri í dag kl. 16:45.

SA-strákarnir eru ósigraðir það sem af er móti og ekki úr vegi að kynnast liðinu aðeins. Eins og gengur og gerist hafa orðið breytingar hjá félaginu, sem missti þrjá leikmenn úr sínum röðum sem spila núna í 2. og 3. deildinni í Svíþjóð. Halldór Skúlason fór í Sölvesborg IK í sænsku 2. deildinni og þeir Gunnar Arason og Heiðar Gauti Jóhannsson fóru báðir til Osby IK í sænsku 3. deildinni. En hjá SA kvíða menn engu þó öflugir leikmenn fari annað því það koma alltaf fleiri upp úr ungliðastarfinu.

Í frétt á vef Skautafélagsins fyrir fyrsta leikinn á dögunum var þetta orðað þannig að „… þrátt fyrir þennan missi er hópurinn þéttskipaður með góðri blöndu af gríðarlega sterkum reynsluboltum og enn stærri hóp ungra og efnilegra leikmanna sem hafa verið að gera sig gildandi í deildinni en einnig kemur ný kippa af leikmönnum inn úr unglingastarfinu.“

Nýr þjálfari er kominn til liðs við félagið, Jamie Dumont, og verður hann aðalþjálfari beggja meistaraflokkannra, auk þess að vera þróunarstjóri unglingaflokkanna, U18, U16 og U14, eins og áður hefur komið fram í frétt á Akureyri.net.

Góð byrjun og góður andi

Skautafélag Akureyrar er sigursælasta félag landsins þegar kemur að íshokkí, bæði í karla- og kvennaflokki. Aðeins í örfá skipti hafa Akureyringar ekki hampað Íslandsmeistaratitlinum, en það gerðist þó einmitt hjá karlaliði félagsins í vor þegar erkifjendurnir í SR unnu titilinn og það á heimasvelli SA. Innbæingar og aðrir sem stunda hokkí vilja örugglega ekki leyfa því að gerast tvö ár í röð og leggja því örugglega enn meira á sig en áður til að vinna. Þeir gátu varla byrjað tímabilið betur en þeir gerðu, sigruðu Íslandsmeistara SR örugglega í fyrsta leik, 6-2.

Andri Már Mikaelsson hefur verið lengi í fremstu röð í hokkíinu á Íslandi og er fyrirliði SA. Aðspurður um stemninguna í hópnum núna þegar liðið er að hefja Íslandsmótið án þess að vera með þennan titil með í för segir Andri Már hana vera mjög góða. Það er góður andi í hópnum og allir klárir í slaginn, segir Andri Már. Það voru nokkrar breytingar á hópnum, við misstum nokkra menn til Svíþjóðar, en það kemur maður í manns stað og við erum með unga og góða leikmenn sem fá þá meiri ábyrgð í vetur.

Spurður um væntingar til deildarinnar og árangurs í vetur svarar Andri Már af hógværð: Við byrjuðum á góðum sigri og planið er auðvitað að halda svoleiðis áfram.“ Líklega óþarfi að spyrja eða taka fram hvort SA stefnir að því að endurheimta Íslandsmeistaratitilinn, sem var lánaður suður eins og það var orðað í frétt Akureyri.net eftir oddaleikinn í vor.

Leikmannahópurinn

Það er áhugavert að rýna í fæðingarár leikmanna því í hópnum má finna menn sem fæddir eru 1981 og svo aðra sem fæddir eru 2008. Tveir gríðarlega reyndir varnarmenn, Björn Már Jakobsson og Ingvar Þór Jónsson, eru enn að. Þeir eru 27 árum eldri en yngstu leikmenn hópsins.

Mark

55 - Jakob Ernfelt Jóhannesson (2000)
35 - Róbert Andri Steingrímsson (1998)

Vörn

  2 - Orri Blöndal (1990)
  3 - Bergþór Bjarmi Ágústsson (2004)
11 - Pétur Elvar Sigurðsson (1993)
18 - Ormur Karl Jónsson (2005)
20 - Atli Þór Sveinsson (2002)
24 - Björn Már Jakobsson (1981)
25 - Ingvar Þór Jónsson (1981)
26 - Andri Þór Skúlason (2008)
71 - Aron Gunnar Ingason (2008)
91 - Róbert Máni Hafberg (2002)

Sókn

  7 - Bjarki Þór Jóhannsson (2007)
  8 - Birkir Rafn Einisson (2005)
  9 - Þorleifur Rúnar Sigvaldason (2007)
10 - Jóhann Már Leifsson (1993), aðstoðarfyrirliði
13 - Uni Steinn Sigurðarson Blöndal (2005)
14 - Bjarmi Kristjánsson (2007)
15 - Baltasar Ari Hjálmarsson (2002)
16 - Stefán Darri Guðnason (2007)
19 - Andri Már Mikaelsson (1990), fyrirliði
23 - Hafþór Andri Sigrúnarson (1997)
26 - Arnar Helgi Kristjánsson (2005)
28 - Unnar Rúnarsson (2002)
33 - Ágúst Máni Ágústsson (2000)
44 - Andri Freyr Sverrisson (1991)
78 - Alex Máni Ingason (2008)
96 - Matthías Stefánsson (1998)
00 - Daníel Snær Ryan (2006)