Fara í efni
Íþróttir

Karlalið SA gæti orðið deildarmeistari í kvöld

Leikmenn SA fagna marki í leik gegn Fjölni á dögunum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Karlalið Skautafélags Akureyrar, Víkingar, taka á móti Skautafélagi Reykjavíkur í tvígang um helgina á Íslandsmótinu í íshokkí. Fyrri leikurinn verður í kvöld og með sigri tryggja Akureyringar sér deildarmeistaratitilinn. Þeir hafa sigrað í sjö af átta leikjum vetrarins.

Leikurinn í kvöld hefst klukkan 19.30 og á morgun hefst viðureign liðanna klukkan 17.45. 

Skautahöllin verður opnuð klukkan 19.00 í kvöld og er fólk beðið um að sýna þolinmæði í afgreiðslu þar sem skrá þarf alla í sæti á leiðinni inn. Einungis er hægt að taka við ákveðnum fjölda áhorfenda og miðasölu verður hætt um leið og þeim fjölda er náð. Miðaverð er 1.000 krónur.

Lið SA og SR hafa mæst þrisvar í vetur; SA vann fyrsta leikinn 5:0 á Akureyri í haust, þann næsta 3:2 í Reykjavík í febrúar og þriðja og síðasta, einnig í Reykjavík, 12:4. Því má reikna með því að deildarmeistarabikarinn fari á loft í kvöld.