Kapp og gleði á grunnskólamótum UFA
Ungmennafélag Akureyrar bauð 1.100 krökkum í 4.-7. bekkjum grunnskólanna á Akureyri á frjálsíþróttamót í Boganum í liðinni viku.
UFA og skólarnir halda mótið í sameiningu, en auk þjálfara og annarra liðsmanna UFA mætti hópur krakka úr 8.-10. bekkjum til mælinga, ásamt því að íþróttakennarar og annað starfsfólk skólanna hjálpaði til við ýmis verkefni. Frá þessu er sagt á heimasíðu UFA.
Auk krakka úr grunnskólunum á Akureyri mætti einn árgangur úr Þelamerkurskóla og veitti stærri skólunum verðuga samkeppni, en keppt var í spretthlaupi, hringhlaupi, langstökki, boðhlaupi og reiptogi. „Mikið kapp var í krökkunum, allir stóðu sig mjög vel, bæði í keppni og í stuðningsmannaliðum, og vonandi höfðu sem flestir gaman af. Ein stúlkan sem kom brosandi í mark eftir spretthlaupið sagðist aldrei á ævinni hafa hlaupið svona hratt,“ segir í umfjölluninni á vef UFA.
Keppnin var í senn einstaklingskeppni og á milli skólanna í hverjum árgangi. Tíu efstu í hverri grein er boðið að æfa frítt með UFA út júní. Í sumum tilvikum réðust úrslit í keppni á milli skóla í síðustu greinum.
Sigurlið í skólakeppninni:
4. bekkur: Brekkuskól
5. bekkur: Lundarskóli
6. bekkur: Lundarskóli
7. bekkur: Síðuskóli
Nánari umfjöllun og myndir má finna á vef UFA.