Fara í efni
Íþróttir

Kammertónlistarhátíð fimm tónlistarkvenna

Flytjendur á kammertónlistarhátíðinni Klassík á eyrinni eru: Anna Elísabet Sigurðardóttir víóluleikari, Rannveig Marta Sarc fiðluleikari, Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir sellóleikari, Þóra Kristín Gunnarsdóttir píanóleikari og Sólveig Steinþórsdóttir fiðluleikari. Þær Sólveig og Geirþrúður Anna eru listrænir stjórnendur hátíðarinnar.

Klassísk kammertónlistarhátíð Klassík á eyrinni verður haldin á Akureyri og í Hrísey um komandi helgi, 17. og 18. ágúst. 

Hátíðin samanstendur af þrennum tónleikum sem haldnir verða í Hrísey, Glerárkirkju og Hofi. Fram kemur einvalalið ungra íslenskra tónlistarkvenna: Þóra Kristín Gunnarsdóttir píanóleikari, Sólveig Steinþórsdóttir og Rannveig Marta Sarc fiðluleikarar, Anna Elísabet Sigurðardóttir víóluleikari og Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir sellóleikari. Saman leika þær uppáhaldsverk kammerbókmenntanna, allt frá Bach og Beethoven til nútímans. Meðal annars verða flutt verk eftir Robert Schumann og Antonín Dvorák, en einnig hljóma stutt og hressileg verk af nýrri toga eftir dáð tónskáld eins og Caroline Shaw og Philippe Hersant.

Listrænir stjórnendur hátiðarinnar eru Sólveig Steinþórsdóttir fiðluleikari og Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir sellóleikari

Um þrenna tónleika er að ræða með mismunandi dagskrá. 

  • Laugardagur 17. ágúst kl. 12:30 – Hádegistónleikar í Sæborg í Hrísey
    Stuttir og laggóðir hádegistónleikar í félagsheimilinu Sæborg sem hluti af danshátíð Hríseyjar. Í dagskrá tónleikanna segir meðal annars: „Hér geta ólmir dansarar á danshátíðinni komið sér í gírinn með því að hlusta á nokkrar gersemar eftir góðkunna kappa eins og Jóhann Sebastian Bach og Antonín Dvorák. Einnig hljóma stuttar og skemmtilegar kaprísur eftir Frakkann Philippe Hersant. Flytjendur eru Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir, Sólveig Steinþórsdóttir, Rannveig Marta Sarc og Anna Elísabet Sigurðardóttir.“

  • Laugardagur 17. ágúst kl. 19:30 – Glerárkirkja
    Beethoven, Caroline Shaw og Johannes Brahms munu óma í Glerárkirkju á laugardagskvöldið. Um þessa tónleika segir í dagskrá: „Á þessum kvöldtónleikum í Glerárkirkju hljóma þrjú verk frá afar ólíkum tímabilum. Tónleikarnir hefjast á yngiskvartett eftir Ludwig van Beethoven en svo er stokkið fram í nútímann og mun þá hljóma kvartett eftir ameríska tónskáldið Caroline Shaw. Tónleikarnir bera yfirskriftina Samtöl en þar er sérstaklega átt við samtalið á milli fyrstu tveggja verkanna á efnisskránni. Shaw dregur beinan innblástur úr verki Beethovens: heyra má oft sömu hendingar og sama glaðhlakkalega karakter í báðum verkum. Síðasta verk efnisskrárinnar er af öðrum toga en raunar má segja að það sé enn í samtali við meistarann Beethoven. Jóhannes Brahms lifði alltaf undir skugga Beethovens og heyra má áhrif hans í þessum dramatíska og ástríðufulla píanókvartett sem Brahms samdi síðla á ævi sinni.“

  • Sunnudagur 18. ágúst kl. 16 – Lokatónleikar í Hömrum í Hofi
    Schumann og Dvorák eru á dagskrá lokatónleika kammertónlistarhátíðarinnar í Hofi á sunnudag þar sem flutt verða tvö sigursælustu og ástsælustu kammertónverk sem skrifuð hafa verið, eins og segir í dagskrá hátíðarinnar. Antonín Dvorák fór í fræga ferð til Ameríku undir lok 19. aldar og komst þar í kynni við tónlist álfunnar. „Hann var gífurlega impóneraður af amerískri alþýðutónlist og í sínum fræga „ameríska“ strengjakvartett, sem hann samdi í ferð sinni, fléttar hann þessa tónlist saman við alþýðutónlist heimalandsins Tékklands. Hinn hægi annar kafli er einstaklega minnisstæður og á að geyma eina fergurstu laglínu sem Dvorák nokkurn tímann samdi. Lokaverkið er svo ekki síður glæsilegt en píanókvintett Róberts Schumann er gjarnan talinn besti píanókvintett sögunnar. Hann er í jöfnu mæli kröftugur, dramatískur, innilegur og sigrihrósandi og spannar allt litróf tilfinninganna.“

Ítarlegri upplýsingar um hátíðina og flytjendurna má finna á vef hátíðarinnar ásamt upplýsingum um miðaverð og miðasölu.