Fara í efni
Íþróttir

KA vann og fer áfram í Sambandsdeildinni

KA-menn unnu öruggan sigur á Connah's Quay Nomads í kvöld og eru komnir í aðra umferð Sambandsdeildar Evrópu. Ljósmynd: Þórir Tryggvason

KA vann öruggan 2:0 sigur á Connah's Quay Nomads í seinni leik liðanna í fyrstu umferð forkeppni Sambandsdeildar Evrópu í kvöld. KA-liðið vinnur einvígið samanlagt 4:0 og eru þeir því komnir áfram í næstu umferð. Daníel Hafsteinsson og Elfar Árni Aðalsteinsson gerðu mörk KA í leiknum. 

Leikurinn fór fram á Park Hall Stadium, gervigrasvelli í bænum Oswestry í Englandi þar sem heimavöllur Connah's Quay Nomads er ekki löglegur í Evrópukeppni, rétt eins og heimavöllur KA. Fínasta veður var á svæðinu og var leikið við góðar aðstæður. Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA gerði þrjár breytingar á byrjunarliði sínu frá fyrri leiknum síðasta fimmtudag. Bjarni Aðalsteinsson, Pætur Petersen & Birgir Baldvinsson komu inn í liðið fyrir þá Jakob Snæ Árnason, Andra Fannar Stefánsson og Þorra Mar Þórisson.

Leikurinn byrjaði rólega. Heimamenn í Connah's Quay Nomads þurftu að sækja enda 2:0 undir eftir fyrri leik liðanna. Walesverjarnir dældu háum boltum inn á teiginn í upphafi en það náði ekki að trufla vörn KA að ráði. Kristijan Jajalo var öruggur á bakvið vörnina þegar þurfti að grípa inn í.

1:0 - Daníel kemur KA yfir - Markahæstur í Evrópusögu KA

Á 16. mínútu leit fyrsta mark leiksins dagsins ljós. Daníel Hafsteinsson gerði það og kom KA í 3:0 forystu samanlagt. Hallgrímur Mar tók þá hornspyrnu frá hægri. Ívar Örn Árnason gerði þá vel og vann skallaeinvígi í teignum. Hann flikkaði boltanum á fjærstöngina þar sem Daníel kom á ferðinni og gat ekki annað en skorað. 

Daníel Hafsteinsson í baráttunni í fyrri leik liðanna. Með marki sínu er hann nú orðinn markahæsti leikmaður KA í Evrópukeppni með tvö mörk. Faðir hans, Hafsteinn Jakobsson er sem stendur í öðru sæti með eitt mark ásamt fjórum öðrum leikmönnum. Ljósmynd: Þórir Tryggvason

_ _ _

Harry Franklin fékk besta færi heimamanna í fyrri hálfleik á 28. mínútu. Hann vann boltann og náði að keyra inn í miðjan teig KA og hleypa af skoti. Hann var hins vegar ekki í miklu jafnvægi og skotið fór rétt fram hjá markinu. Staðan var 1:0 KA-mönnum í vil þegar hinn portúgalski dómari Gustavo Correia flautaði til loka fyrri hálfleiks. Liðið var þarna í þægilegri stöðu, 3:0 yfir samanlagt og heimamenn ekki átt skot á markið þegar þarna var komið við sögu.

Connah's Quay Nomads byrjuðu þó seinni hálfleikinn af krafti en liðið fór töluvert ofar á völlinn til þess að freista þess að minnka muninn. Jordan Davies fékk fínt skallafæri á 54. mínútu en náði ekki að stýra boltanum í netið og stuttu seinna varði Jajalo vel skot heimamanna úr teignum af stuttu færi. En eftir fínan kafla heimamanna unnu KA-menn sig aftur inn í leikinn.

2:0 - Elvar Árni gulltryggir sigurinn

KA-menn bættu svo við öðru marki á 77. mínútu leiksins. Elfar Árni Aðalsteinsson gerði markið en hann hafði komið inn á sem varamaður stuttu áður. Daníel Hafsteinsson átti sendingu á Hrannar Björn Steingrímsson sem átti góða fyrirgjöf inn í teiginn á milli varnar og markmanns. Þar var Elfar Árni mættur og stýrði boltanum snyrtilega í netið.

_ _ _

Lítið markvert gerðist eftir seinna markið og KA-menn sigldu öruggum sigri heim, lokatölur á Englandi 2:0. KA-menn vinna einvígið því samanlagt 4:0 og eru því komnir áfram í aðra umferð forkeppni Sambandsdeildar Evrópu. Vissulega er Connah's Quay Nomads ekki sterkasta lið sem spilað hefur í Evrópu og KA-menn eru einfaldlega bara betra lið. Frammistaða KA var fagmannleg í báðum leikjunum og skilar liðinu áfram í næstu umferð í Evrópu. Það er í fyrsta sinn sem KA tekst það. 

Næsti mótherji KA verður annað hvort Dundalk frá Írlandi eða Magpies frá Gíbraltar. Þegar þetta er skrifað er Dundalk 2:1 yfir í því einvígi en leik er ekki lokið