Fara í efni
Íþróttir

KA tekur á móti toppliði Breiðabliks í dag

Ívar Örn Árnason hefur leikið mjög vel með KA í sumar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Fyrsti leikur KA síðan markakóngurinn Nökkvi Þeyr Þórisson var seldur til Belgíu fer fram í dag þegar liðið tekur á móti Breiðabliki í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu.

Fróðlegt verður að sjá hvaða áhrif brotthvarf Nökkva hefur á KA-liðið. Hann var í miklum ham í sumar og hefur gert 17 af 45 mörkum liðsins í deildinni. 

Breiðablik er í efsta sæti og ljóst að liðið verður þar að loknum hefðbundnum 22 umferðum en KA er í harðri baráttu við Víking um 2. sætið. Næst síðasta umferð hefðbundinnar deildarkeppni er á dagskrá í dag, sú síðasta verður um næstu helgi og að henni lokinni verður fimm leikja „framlenging“ – einföld umferð sex efstu liða, þar sem efri þrjú liðin fá þrjá heimaleiki en tvo á útivelli og öfugt. Liðin halda stigum úr leikjunum 22 og að loknum fimm til viðbótar verður ljóst hverjir fagna Íslandsmeistaratitli og hverjir komast í Evrópukeppni á næsta ári.

KA getur mest náð 43 stigum, með því að vinna Breiðablik í dag og Val í Reykjavík um næstu helgi. Tapist báðir leikirnir hins vegar gæti KA endaði í fjórða sæti ef Valur vinnur Leikni í dag og KA í síðustu umferðinni.

Leikurinn í dag fer fram á nýja Greifavellinum í KA-svæðinu.

Allir leikir dagsins hefjast klukkan 14.00:

  • Keflavík – Víkingur
  • FH – ÍA
  • Leiknir – Valur
  • KA – Breiðablik
  • KR – Stjarnan
  • ÍBV – Fram

Staða sex efstu liða er þessi þegar 20 leikjum er lokið:

  • Breiðablik 48 stig
  • Víkingur 39 stig
  • KA 37 stig
  • Valur 32 stig
  • Stjarnan 28 stig
  • KR 27 stig

Síðasta umferðin í hefðbundnu deildarkeppninni verður um næstu helgi, laugardaginn 17. september klukkan 14.00:

  • Breiðablik – ÍBV
  • Fram – keflavík
  • Stjarnan – FH
  • Valur – KA
  • ÍA – Leiknir
  • Víkingur – KR