KA tapaði – úrslit ráðast á Ásvöllum
Haukar unnu KA-menn með eins marks mun, 23:22, í svakalegum leik í KA-heimilinu í kvöld í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í handbolta. Þeir náðu þannig fram hefndum eftir að KA vann fyrstu viðureign liðanna á Ásvöllum í Hafnarfirði. Rimmunni lýkur á heimavelli Hauka á miðvikudagskvöldið; liðið sem sigrar þá fer í fjögurra liða úrslitin.
Leikurinn var sveiflukenndur. Lítið var skorað framan af en Haukar voru tveimur mörkum yfir, 8:6, þegar fyrri hálfleikurinn var um það bil hálfnaður, og komust í fyrsta skipti þremur mörkum yfir, 12:9, þegar langt var liðið á hálfleikinn en KA gerði tvö síðustu mörkin og aðeins munaði einu marki þegar viðureignin var hálfnuð; staðan 12:11 fyrir Hauka.
Gestirnir byrjuðu miklu betur í seinni hálfleik og komust í 16:12 en þá kom ótrúlegur kafli KA-strákanna. Þeir gerðu sex mörk í röð, Óðinn Þór Ríkharðsson öll nema eitt, og staðan breyttist í 18:16!
Spennan hélst áfram og í raun var allt í járnum til enda. KA-menn komust nokkrum sinnum tveimur mörkum yfir en Haukar náðu alltaf að jafna og komust loks yfir, 22:21, þegar um fjórar mínútur voru eftir. KA jafnaði en það var svo Ólafur Ægir Ólafsson sem tryggði Haukum sigurinn með síðasta markinu. Þá var reyndar rúm mínúta eftir af leiknum, bæði lið fengu úrvals tækifæri til að skora en tókst ekki.
Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.
Fjölmennt var í KA-heimilinu í kvöld og stemningin frábær. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.
Ekkert var gefið eftir í kvöld. Hér fær Arnór Ísak Haddsson óblíðar móttökur hjá Haukavörninni. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.