KA tapaði fyrir Gróttu á Seltjarnarnesi
KA tapaði fyrir Gróttu, 27:24, á Seltjarnarnesi í dag í Olís deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í handbolta. Staðan í hálfleik var 16:14 fyrir Gróttu. Með sigrinum jafnaði Grótta KA að stigum; bæði eru með sex stig að sjö leikjum loknum.
Grótta náði fljótlega nokkurra marka forskoti, KA-menn tóku góðan sprett og komust yfir þegar langt var liðið á fyrri hálfleikinn en Seltirningar snéru stöðunni aftur sér í hag áður en hálfleikurinn var úti.
Seinni hálfleikurinn hófst eins og sá fyrri, Grótta var komin með fimm marka forskot, 20:15, þegar hann var hálfnaður. KA-menn minnkuðu muninn í tvö mörk þegar rúmar fimm mínútur voru eftir en nær komust þeir ekki.
Markverðir liðanna léku báðir afar vel í dag; Gróttumaðurinn Einar Baldvin Baldvinsson varði 19 skot, rúmlega 44% þeirra sem hann fékk á sig, og Bruno Bernat í marki KA stóð var lítið síðri; varði 18 skot.
Mörk KA: Einar Rafn Eiðsson 5, Ott Varik 5, Skarphéðinn Ívar Einarsson 4, Einar Birgir Stefánsson 3, Patrekur Stefánsson 2, Ólafur Gústafsson 2, Daði Jónsson 1, Magnús Dagur Jónatansson 1, Dagur Árni Heimisson 1.
Varin skot: Bruno Bernat 18 (40%)
Smellið hér til að sjá alla tölfræðina.