Fara í efni
Íþróttir

KA strákarnir dottnir út eftir frábæran leik

Miguel Mateo Castrillo leikmaður og þjálfari KA er úr leik í bikarkeppni karla en stýrir KA í úrslitum bikarkeppni kvenna á morgun. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Karlalið KA í blaki náði ekki að feta í fótspor kvennaliðs félagsins og tryggja sér sæti í úrslitaleik bikarkeppninnar sem fram fer á morgun. KA-strákarnir töpuðu fyrir liði Hamars úr Hveragerði í undanúrslitum í kvöld, 3:2, í frábærum leik í íþróttahúsinu Digranesi í Kópavogi.

Ham­ar vann fyrstu hrinu býsna ör­ugg­lega, 25:19 og Hvergerðingarnir höfðu einnig betur í annarri hrinu en hún var æsispennandi. Lokatölur 28:26.

Segja má að KA-menn hafi verið komnir með bakið upp við vegg því tap í þriðju hrinu þýddi að þeir væru úr leik. Þeir neituðu að játa sig sigraða, spýttu í lófana og unnu hrinuna 25:22 og síðan þá fjórðu örugglega, 25:19. 

Síðasta hrinan - oddurinn - var í járnum lengi vel. KA gat komist yfir þegar staðan var 9:9 en tókst ekki og Hamarsmenn, bikarmeistarar síðustu þriggja ára, sigldu fram úr og unnu 15:10.