Fara í efni
Íþróttir

KA-strákar fengu brons á Granollers Cup

Strákarnir í 3. flokki KA í handbolta gerðu það gott á Granollers mótinu á Spáni sem fram fór nýverið í samnefndri borg, norðan við Barcelona. Þeir urðu í 3. sæti í keppni 21 árs og yngri en árangurinn er afar athyglisverður í ljósi þess að KA-strákarnir eru á aldrinum 17 til 19 ára! Þetta kemur fram á handboltavef Íslands, handbolti.is.

KA vann tvo leiki en tapaði tveimur í riðlakeppni snemma móts, þar á meðal fyrir heimamönnum í Granollers. Hitt tapið var fyrir öðru spænsku liði, BM Colores, sem KA vann svo á sannfærandi hátt, 19:15, í leiknum um þriðja sæti.

Í átta liða úrslitum vann KA lið Ordizia Eskubaloia en tapaði í undanúrslitum fyrir heimamönnum í BM Granollers sem sigruðu á mótinu.

Þjálfarar strákanna eru Guðlaugur Arnarsson og Stefán Árnason.