Fara í efni
Íþróttir

KA spáð 7. sæti – fyrstu leikirnir á Dalvík

Spænski miðjumaðurinn Rodri hjá KA og danski framherjinn Nikolaj Hansen eigast við í leik KA og Víkings á Dalvík í fyrrasumar. Hansen var markahæsti leikmaður Íslandsmótsins og valinn sá besti af leikmönnum og þjálfurum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA er spáð 7. sæti í Bestu deildinni, eins og efsta deild Íslandsmótsins í knattspyrnu heitir nú. Þetta kom fram á kynn­ing­ar­fundi Íslensks topp fótbolta (ÍTF) fyr­ir Bestu deild­ina í höfuðstöðvum KSÍ í Laug­ar­dal í dag.

Fyrirliðar, þjálfarar og forráðamenn liða í efstu deild Íslandsmótsins hafa í áratugi tekið þátt í þeim samkvæmisleik að spá fyrir um úrslit mótsins skömmu áður en flautað er til fyrsta leiks. 

Umræddur hópur spáir því að Íslandsmeistarar Víkings verji titilinn, að Breiðabliki verði í öðru sæti en að lið Keflavíkur og Fram muni falla í haust.

Vík­ing­ar fengu 367 stig í spánni en Breiðablik, sem hafnaði í öðru sæti deild­ar­inn­ar á síðustu leiktíð eft­ir harða bar­áttu við Vík­inga, var spáð öðru sæt­inu með 364 stig. Því er sem sagt spáð að aftur verði mjótt á mununum.

Spá fyr­irliða, þjálf­ara og for­ráðamanna:

1. Vík­ing­ur - 367 stig
2. Breiðablik - 364 stig
3. Val­ur - 334 stig
4. KR - 316 stig
5. FH - 299 stig
6. Stjarn­an - 223 stig
7. KA - 207 stig
8. Leikn­ir R. 160 stig
9. ÍA - 120 stig
10. ÍBV - 120 stig
11. Kefla­vík - 82 stig
12. Fram - 68 stig

Íslandsmótið hefst í næstu viku.

  • Fyrsti leikur KA verður miðvikudaginn 20. apríl þegar Leiknismenn úr Reykjavík koma í heimsókn. Leikurinn hefur verið skráður á Greifavöllinn (Akureyrarvöll) allt þar til í dag að tilkynnt var formlega að leikið verður á Dalvík. Leikurinn hefst klukkan 18.00.

Ljóst er að fyrstu heimaleikir KA verða á Dalvík en ekki liggur fyrir hve margir.

Þetta eru fyrstu leikir KA í Bestu deildinni:

  • KA – Leiknir, miðvikudag 20. apríl
  • ÍBV – KA, sunnudag 24. apríl
  • KA – Keflavík, mánudag 2. maí
  • KR – KA, laugardag 7. maí
  • KA – FH, miðvikudag 11. maí